Guðsþjónusta sunnudaginn 21.febrúar

20. febrúar 2021
Á konudaginn, sunnudaginn 21. febrúar,  er guðsþjónusta og barnastarf  kl. 11.00.
Sungnir verða sálmar eftir konur, bæði lög og textar.
Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt messuþjónunum.  Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja og leiða söng. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.
Barnastarfið er í umsjá Rósu Árnadóttur.

Sálmarnir sem verða sungnir eru:

549  Hvar sem ég er
343 Skín Guðdómssól á hugarhimni mínum.
915 Ég trúi og til þín ég flý.

Eftir prédikun syngja félagar úr Mótettukórnum   "Í  svörtum himingeimi"
sem er lag Arngerðar Maríu Árnadóttur við texta Davíðs Þórs Jónssonar.

Forspil er Wenn wir in höchsten Nöthen sein BWV 641 Johann Sebastian Bach
og
eftirspil er Fúga í g-moll BWV 542/II Johann Sebastian Bach

Textar sunnudagins eru:
Lexía: Sálmur 1
Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur götur syndara
og eigi situr meðal háðgjarnra
heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum.
Óguðlegum farnast á annan veg,
þeir hrekjast sem hismi í stormi.
Því hvorki standast óguðlegir fyrir dómi
né syndarar í söfnuði réttlátra.
Drottinn vakir yfir vegi réttlátra
en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Pistill: 2.Kor 13-5-8
Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar, prófið ykkur sjálf.
Gerið þið ykkur ekki grein fyrir að Jesús Kristur lifir í ykkur? Það skyldi vera að þið stæðust ekki prófið. En ég vona að þið komist að raun um að ég hef staðist prófið. Ég bið til Guðs að þið gerið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti mitt heldur til þess að þið gerið hið góða. Ég gæti eins sýnst óhæfur. Því að ekki megna ég neitt gegn sannleikanum heldur með hjálp hans.

Guðspjallið er úr Lúkasarguðspjalli,  10. kafli versin 17-20.
Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni.“
En Jesús mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein. Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“v