Guðsþjónusta sunnudaginn 9. ágúst kl. 11

06. ágúst 2020


Guðsþjónusta 9. ágúst 2020, kl. 11:00

Níundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Vinsamlegast virðið 2 m regluna. Handspritt er við kirkjudyr.

 

Sr. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari.  Messuþjónar aðstoða. Organisti er Lára Bryndís Eggertsdóttir. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju leiða safnaðarsöng.

 

Forspil

Michael Jón Clarke (1949*): Syndaflóðið (2013) – I. Jörðin er full af ranglæti

Guð sagði við Nóa: „Ég hef ákveðið endalok allra manna á jörðinni því að jörðin er full orðin af ranglæti þeirra vegna. Nú eyði ég þeim ásamt jörðinni.G14 (1Mós 6.13)

29 Mikli Drottinn

881 Við heyrum Guðs heilaga orð

584 Stjörnur og sól

712 Dag í senn

701 Guð, faðir himnum hærri

Eftirspil

Þóra Marteinsdóttir (*1978): Ég kallaði á Drottin (2014) – II. Ég vék ekki af vegi Drottins

Drottinn launaði mér réttlæti mitt, endurgalt mér hreinleika handa minna því að ég vék ekki af vegi Drottins og brást ekki Guði mínum. (Slm 18:21-22)

 

Lexían: Orðs. 2.1-6

Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku
og geymir boðorð mín hjá þér,
svo að þú ljáir spekinni athygli þína,
hneigir hjarta þitt að hyggindum,
já, ef þú kallar á skynsemina
og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim sem að silfri
og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er,
og öðlast þekking á Guði.
Því að Drottinn veitir speki,
af munni hans kemur þekking og hyggindi.

 

Pistillinn: 1. Pét. 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

 

Guðspjallið: Lk. 16.1-9

Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.

 

Verið hjartanlega velkomin í Hallgrímskirkju.