Guðsþjónustur falla niður enn um sinn

16. apríl 2021
Þegar samkomubanni léttir.  Þegar, þegar, þegar og hvað þá ?  Hefði okkur komið til hugar að vorið 2021 enn og aftur yrði þögnin og kyrrðin, logi á kertum, bænaljós það eina sem rúmast í kirkjunni auk 10 einstaklinga, síðan 20 og nú í dag eru það 30 sem mega koma saman við formlegt helgihald utan útfara.Hér í Hallgrímskirkju er því ekki enn mögulegt að kalla saman til hefðbundins helgihalds sunnudagsins í ljósi núgildandi sóttvarnarreglna og fjöldatakmarkana sem þeim fylgja.   Sunnudagsguðsþjónustur falla því niður enn um sinn en bænastundir eru á sunnudögum, mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 12.00.

Þetta er flókinn veruleiki í löngu samkomubanni en bjartari tímar eru á leiðinni til okkar og við bíðum þolinmóð eftir að það rofi til og við getum hittst í kirkjunni okkar.  Á meðan logar bænaljós í kirkjunni og kyrrðin rúmar og kallast á við nærveru Guðs sem vakir yfir okkur hvar sem við erum, lifum og leggjum höfuð okkar á koddann.  Við höldum út í hvers annars þágu, stöndum saman og verndum hvert annað á þennan hátt.

Komandi sunnudagur í kirkjunni er stundum kallaður hirðis sunnudagur því tónar og orð ganga út frá frásögum Biblíunnar og líkingum um hirðinn, góða hirðinn.   Þó að við getum ekki safnast saman til hefðbundinnar guðsþjónustu og heyrt um hann í kirkjunni eða sungið þennan sunnudaginn þá treystum við því að hirðirinn góði, Jesús, er alltaf á meðal sauða sinna og gáir og gætir.  Jesús vakir í lífsins veröld og þangað hélt hann strax í árdaga þegar steini var velt frá gröf.  Hann hélt út í lífið til að vera með okkur, gæta lífsins og okkar.

Treystum því og vonandi sem fyrst sjáumst við aftur í sunnudagsguðsþjónustuni, innan skamms....