Hallgrímur enn í fullu fjöri

07. mars

Hallgrímur enn í fullu fjöri.
Undanfarin ár hefur Hallgrímskirkja efnt til fyrirlestraraðar tvisvar á ári, í febrúar og október þar sem tekin hafa verið fyrir hin ýmsu fyrirbæri
mannlífsins í fortíð og nútíð og gott fólk fengið til að halda erindin.
Á þessu ári er þess minnst á margvíslegan hátt að 350 ár eru liðin frá andláti Hallgríms Péturssonar. Þess vegna þótti sjálfsagt að tengja þema
fræðsluerinda febrúarmánaðar við minningu hans.

Yfirskriftin var valin: Hinar mörgu myndir Hallgríms Péturssonar
Flutt voru fjögur erindi: Margrét Eggertsdóttir. Húmoristinn Hallgrímur Pétursson. Þorsteinn Helgason. Kirkjuvit barna í bréfaskóla Hallgríms
Péturssonar. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir. Hallgrímur Pétursson í ljóðum nútímaskálda. Sr. Eiríkur Jóhannsson. Þjóðsagnapersónan Hallgrímur
Pétursson.

Eins og sést af þessarri upptalningu þá var leitast við að draga upp fjölþætta mynd af skáldinu og prestinum og að þessu sinni meðvitað sneitt hjá hans helsta verki Passíusálmunum. Reynt að skyggnast eftir því hvaða stöðu hann hefur og hafði í vitund þjóðarinnar í nútíð og fortíð, um leið var sjónum beint að hans fjölbreytta höfundarverki. Erindin voru vel sótt og greinilegt að minning Hallgríms lifir enn góðu lífi í vitund fólks.

 Sr. Eiríkur Jóhannsson
Myndir: SB