Hallgrímssókn býður til safnaðarferðar í Skálholt – kolefnisjöfnum safnaðarstarfið sama

12. september 2019
Í vor ákvað kirkjuráð Þjóðkirkjunnar að stefna að metnaðarfullum aðgerðum í umhverfismálum. Meðal þessara aðgerða er að bjóða söfnuðum Þjóðkirkjunnar að kolefnisjafna safnaðarstarfið sitt með því að gróðursetja tré í landi Skálholts. Nýlega lagðist af búskapur í Skálholti og ákveðið hefur verið að helga landið til skógræktar. Með þessu verður hægt að sjá andlegu víddina í varðveislu lands og náttúru – að vera ráðsmenn sköpunarverksins. 

Og að sjálfsögðu tekur Hallgrímskirkja þátt í þessu.Mánudaginn 16. september, sem er dagur íslenskrar náttúru, býður Hallgrímssókn til safnaðarferðar í Skálholt. Farið verður með rútu frá Hallgrímskirkju klukkan 15.30 og við komuna í Skálholt verður gengið að reit sem skipulagður hefur verið fyrir helgun lands. Eftir stutta helgiathöfn sem hefst klukkan 17 verður tekið til hendinni og gróðursettar plöntur. Eftir gróðursetninguna verður boðið upp á súpu og brauð í Skálholtsskóla.

Skráning í ferðina er hjá kirkjuvörðum en takmarkaður sætafjöldi er í ferðina. Hallgrímssókn býður til ferðarinnar auk súpu og brauðs en mikilvægt er að allir séu klæddir eftir veðri. Og að sjálfsögðu er lofað góðu og uppbyggjandi samfélagi á góðum stað.

Skráning hjá kirkjuvörðum: kirkjuverdir@hallgrimskirkja.is og s: 510 1000.