Hannfried Lucke spilar á seinustu orgeltónleikum Alþjóðlegs orgelsumars, sunnudaginn 19. ágúst kl. 17

15. ágúst 2018
Sunnudaginn 19. ágúst kl. 17 leikur Hannfried Lucke, konsertorganisti og prófessor við Mozarteum-háskólann í Salzburg, verk eftir Byrd, Liszt, Novák, Reger og Rachmaninov, ásamt Fantasíu og fúgu í g-moll eftir Bach.

Miðaverð er kr. 2.500.

Miðasala í Hallgrímskirkju opnar klukkutíma fyrir hverja tónleika en einnig má kaupa miða á midi.is

 



Hannfried Lucke kom fram á fyrstu tónleikaröð Alþjóðlega orgelsumarsins árið 1993 og hefur í framhaldi af því átt farsælt samstarf við Hörð Áskelsson og Mótettukór Hallgrímskirkju. Hannfried lék m.a. með kórnum á tónleikaferðalagi um Mið-Evrópu, á tónleikum í Hallgrímskirkju og í Skálholti. Þá hljóðritaði hann verk eftir Duruflé inn á geisladisk með kórnum sem selst hefur um allan heim.

Hannfried stundaði nám í heimaborg sinni, Freiburg í Þýskalandi, við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og hjá Lionel Rogg í Genf í Sviss. Árið 1997 var hann skipaður prófessor í orgelleik í Graz í Austurríki og frá árinu 2000 hefur hann verið prófessor í orgelleik við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg. Árin 2016 og 2017 var hann einnig afleysingaprófessor við Tónlistarháskólann í Freiburg.

Sem eftirsóttur konsertorganisti hefur Hannfried Lucke leikið á fjölda þekktra orgela í flestum löndum Evrópu auk þess sem leikur hans hefur verið hljóðritaður við mörg þeirra. Þá hefur hann komið fram í USA, Kanada, Japan, Hong Kong og Ástralíu og í fjöldamörgum þekktum tónleikasölum eins og Royal Festival Hall í Lundúnum og í St. Patrick‘s Cathedral og á tónlistarhátíðunum í Vín, Tanglewood í Massachucetts og í d‘Aix-en-Provence í Suður-Frakklandi. Hannfried er virtur kennari á meistaranámskeiðum auk þess að vera dómari í alþjóðlegum keppnum í orgelleik.