Hádegistónleikar Schola cantorum

SCHOLA CANTORUM


HÁDEGISTÓNLEIKAR ALLA MIÐVIKUDAGA KL. 12


21. júní – 31. ágúst


Kammerkórinn Schola cantorum hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn „Tónlistarflytjandi ársins 2016” á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars sl. og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju ( áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn hélt veglega upp á 20 ára afmæli sitt á sl. ári með fjölbreyttum tónleikum, þ.s. kórinn frumflutti m.a. Requiem eftir Sigurð Sævarsson og flutti Jólaóratóríu J.S. Bach með Alþjóðlegu barokksveitinni í des. sl., og kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl sl., þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.
Á tónleikum sumarsins flytur Schola cantorum m.a. þekktar íslenskar kórperlur í bland við íslensk verk af nýjasta geisladiskinum, MEDITATIO, sem kom út hjá hinu virta sænska útgáfufyrirtæki BIS á síðasta ári og hefur hlotið afburða dóma í fagtímaritum um allan heim.

Upplýingar um Alþjóðlega Orgelsumarið í Hallgrímskirkju HÉR.

Miðaverð: 2.500 krónur. Miðasala er einnig á midi.is.