Hádegistónleikar Schola Cantorum miðvikudaginn 20. juní kl:12:00-12:30

19. júní 2018
20. júní kl. 12.00: Schola cantorum, stjórnandi Hörður Áskelsson

Hinn margrómaði kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, syngur á fyrstu kórtónleikum orgelsumarsins undir stjórn Harðar Áskelssonar miðvikudaginn 20. júní kl. 12. Þar gefur að heyra kórperlur eftir Jón Nordal, Sigvalda Kaldalóns, Byrd, Mendelssohn, Sigurð Sævarsson, Bruckner og Händel í bland við íslensk þjóðlög. Tónleikagestum er boðið upp á kaffi og sætan mola í suðursalnum að tónleikunum loknum þar sem tækifæri gefst til að spjalla við söngvarana og kynnast starfi kórsins. Miðaverð 2.500 kr.


 

Efnisskrá:


Íslenskt þjóðlag, úts. Róbert A. Ottósson Vinaspegill


Íslenskt þjóðlag, úts. Hjámar H. Ragnarsson Stóðum tvö í túni


Jón Nordal *1926 Smávinir fagrir


Sigvaldi Kaldalóns 1881-1946 Á Sprengisandi


Úts.: Jón Ásgeirsson


William Byrd 1540-1623 Ave verum corpus


Sigurður Sævarsson *1963 Nunc dimittis


Felix Mendelssohn-Bartholdy 1809-1847 Herr, nun lässest du


Anton Bruckner 1824-1896 Locus iste


Georg F. Händel 1685-1759 Dagur er nærri


 


Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn „Tónlistarflytjandi ársins 2016” á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 2017 og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju ( áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl 2017, þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.