Hádegistónleikar Schola Cantorum, miðvikudaginn 27. júní kl 12.00

26. júní 2018
Kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, syngur á öðrum kórtónleikum orgelsumarsins miðvikudaginn 27. júní kl. 12. Þar gefur að heyra verk eftir Jón Nordal, Sigvalda Kaldalóns, Byrd, Mendelssohn, Sigurð Sævarsson, Bruckner og Händel í bland við íslensk þjóðlög. Tónleikagestum er boðið að þiggja kaffisopa að tónleikunum loknum, spjalla við söngvarana og kynnast starfi kórsins.

Miðaverð er 2.500 kr.



Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn „Tónlistarflytjandi ársins 2016” á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 2017 og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju ( áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl 2017, þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.

 

Efnisskrá tónleikanna:

Íslenskt þjóðlag, úts. Róbert A. Ottósson Vinaspegill

Íslenskt þjóðlag, úts. Hjámar H. Ragnarsson Stóðum tvö í túni

Jón Nordal *1926 Smávinir fagrir

Sigvaldi Kaldalóns 1881-1946 Á Sprengisandi

Úts.: Jón Ásgeirsson

William Byrd 1540-1623 Ave verum corpus

Sigurður Sævarsson *1963 Nunc dimittis

Felix Mendelssohn-Bartholdy 1809-1847 Herr, nun lässest du

Anton Bruckner 1824-1896 Locus iste

Georg F. Händel 1685-1759 Dagur er nærri