Sunnudagurinn 26. nóvember kl. 17 heiðra orgelnemendur Harðar Áskelssonar kennara sinn og fyrrverandi kantor í Hallgrímskirkju
Hörður Áskelsson var organisti og kantor Hallgrímskirkju í 39 ár frá 1982 til 2021. Hann flutti heim til Íslands eftir að hafa stundað kirkjutónlistarnám í Düsseldorf í Þýskalandi sem hann lauk með hæstu einkunn vorið 1981. Hann gegndi lykilhlutverki við uppbyggingu listalífs í Hallgrímskirkju og við val á Klais-orgeli kirkjunnar. Hann stóð að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju (sem nú nefnist Listvinafélagið í Reykjavík), Kirkjulistahátíðar, Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju og Sálmafoss á Menningarnótt.
Árið 1982 stofnaði Hörður Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola Cantorum árið 1996. Báðir hafa kórarnir verið í fremstu röð íslenskra kóra. Með þeim hefur hann flutt flest helstu kórverk sögunnar, bæði með og án undirleiks. Þá hefur hann stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað fyrir hann.
Heiðurstónleikarnir eru á hausttónleikaröð kirkjunnar og á þann hátt vill Hallgrímskirkja heiðra Hörð Áskelsson sjötugan.
Flutt verða verk eftir: Buxtehude, Bach, Kerll, Sigurð Sævarsson, Messiaen, Þorkel Sigurbjörnsson og Dupré.
Fram koma: Ágúst Ingi Ágústsson, Eyþór Ingi Jónsson, Guðjón Halldór Óskarsson, Jóhann Bjarnason, Jón Bjarnason, Kári Þormar og Lára Bryndís Eggertsdóttir.