Nafn Hermanns Þorsteinssonar er nátengt byggingarsögu Hallgrímskirkju. Sístarfandi hugur hans, óteljandi viðvik, samtöl, ráðstafanir, samningar, fundir, ákvarðanir og sterkur vilji til verka, vógu þungt í þessu mikla samræmda átaki landsmanna. Sem formaður sóknarnefndar og forstöðumaður byggingaframkvæmdanna varð hann að leysa úr ótal vandamálum og hafa þá framsýni til að bera sem stóðst mat samtíðar og reyndist síðan vel í framtíðinni. Þar fór hann farsælan veg, skarpur, harðduglegur, iðjusamur og fórnfús á tíma sinn og þrek. Hann náði háum aldri. Hann var glæsilegur á velli. Stóð upp úr meðalmennskunni. Hann var mikill kirkjusmiður. Vissi vel að hið eiginlega hús Guðs var reist á þremur dögum og ekki með höndum gert.
Eitt helsta hugðarefni Hermanns var bygging Hallgrímskirkju. Hann tók sæti í sóknarnefnd kirkjunnar árið 1960, og tók við forstöðu framkvæmdanna árið 1965. Hermann fór á eftirlaun 1985 og nýtti þá starfskrafta sína sem ólaunaður byggingarstjóri Hallgrímskirkju, þar til kirkjan var vígð, 26. október 1986.