Hjörð og hirðir

18. apríl 2021
Árstíð vorsins, sætsúr þefur úr varnarlausri jörðinni.  Ekkert sem skýlir nekt hennar þar til grasið fer að grænka og hylja, tré að laufgast og sólin að ylja.   Í vorinu heyrist brátt skríkjandi fuglasöngur og tímans tákn er lamb sem lítur dagsins ljós, ótal líf í heiminn borinn og okkur þykir þetta allt svo merkilegt – hvert líf sem kviknar.  Svo sjáum við framrás lífsins, hið nýfædda ungviði breytist í íslenskt forystufé, hrútar, gemlingar, gimbrar og ær, kollótt og hyrnt.
Flekkótt, blesótt, mórautt og sokkótt – já bara allavegana það verður til hjörð þar sem enginn má týnast.  Hjörðin er marglit, margvísleg og fyrir henni fer eða röltir meðal hennar einn hirðir sem er tilbúinn að  leita og yfirgefa alla hina.

Við þekkjum orðin og líkinguna.  Kristur sem  leiðir hjörðina – lítur um öxl til að athuga hvort allir séu með !  Öll litskrúðuga mannlífsflóran sem vill flykkja sér að baki honum.  Þetta er kunnugleg líking sem hefur líka myndgerst í litsterkum gluggum kirkna eða máluðum myndum og á ótalmörgum heimilum.  Útsaumuð eða máluð eða jafnvel upplituð eftirprentun og vekur hjá okkur hlýju og minningar.   Minningar sem tengjast öryggi, allir hlutir á sama stað í gömlu stofunni, veröldinni, heima og að heiman, kirkjunni sem geymir sætin okkar í bekkjunum þar til við getum hittst aftur.
Við skulum hvíla í þessum minningum.  Loka augunum, hvílast eða lesa aðeins áfram.
Minningar og myndir um hirðirinn minn og þinn...þínar myndir... kannski mínar  eða annarra ?

Smali og hirðir.

Við eigum myndir í bókmenntum af smalanum Bensa eða Benedikt sem fór í leitir á aðventu og lagði mikið á sig til að safna saman eftirlegukindum.  Svo höfum við myndina frá fortíðinni, afa eða ömmu kannski sem sitja skjálfandi ungmenni að gæta sauðanna í íslensku óupplýstu rökkri fyrri alda.  Oft köld, jafnvel blaut í fætur og svöng eins og lýst er í frásögum fólk frá fyrst hluta síðustu aldar og fyrr.  Ekki skulum við gleyma þeim á Betlehemsvöllum, hirðarnir sem gættu fjárins fyrir villidýrum og voru af lægstu stéttum samfélagsins en voru áhrifavaldar við fæðingu Jesú.

Merkilegt hvað frásögur Biblíunnar miðla ekki fyrirmyndum í því háa og merkilega heldur í lægstu stéttum samfélagsins og þaðan sprettur viskan, réttlætið og kærleikurinn. Hverjir skyldu vera hirðar dagsins í dag eða liðanna áratuga ?  Þau sem binda um hið sjúka, gera sér engan mannamun, leiðtogar í þjónustu.  Höfum við ekki sofnað á verðinum ?

Rétt um aldamótin var konan Ólafía Jóhannsdóttir nokkurskonar hirðir hinna lægst settu í samfélaginu  – oftast kvenna.  Hún var vinur hinna hrjáðu og sinnti útgangskonum í Osló, vændiskonum Hér á landi heimsótti hún sjúka, vann að aðhlynningu drykkjumanna og flutti trúmálaerindi. Ólafía seldi seinna eigur sínar og hélt til Noregs en þangað fór hún fyrir köllun frá Hvítabandinu (Kvenfélag í Reykjavík stofnað 17. apríl 1895 að erlendri fyrirmynd.  Ólafía var aðalhvatamaður að stofnun þess).  Þar helgaði hún sig trúnni, losaði sig við allt prjál og viðhafnarklæð, sannfærð um að það yrði henni því aðeins til gleði að aðrir gætu notið þess með henni.  Ólafía andaðist 1924.

Gæti þetta ekki verið mynd af hirði - sem annast um sína hjörð.  Hirðir sem gengur á undan með góðu fordæmi af elsku til lífsins en er líka sá sem safnar saman.

Hirðir og sköpun

Ein mynd til og hún er af góða hirðinum sem gengur á undan og annast umhverfi sitt.  Góði hirðirinn á ferð um sköpun Guðs.  Að hirða um jörðina fjallar um að taka ábyrgð á því að vera á verði og láta sér anna um tegundir lífsins og lífræðilegan fjölbreytileika jarðarinnar.  Á þessum tímum þegar við sjáum jörðina verða til hér rétt á bakgarðinum okkar suður á Reykjanes, elda koma djúpt úr jörðu og glóandi hraunmola eignast líf í gliti sólarlagsins og myrkursins.   Þar er líka  Kristu á ferð, sá sem verndar, sem annast alla sköpunina og bendir okkur sömu leið af elsku sinni og gefur jörðinni líf kærleikans,  jarðvegi, skepnum, fólki, eldum og gjalli, hinu smæsta öllu sem því stærsta.

Hirðir er ekki táknmynd um hina sterku leiðtoga sem leiða fólk þangað sem leiðtoginn vill.  Góði hirðirinn er táknmynd kærleika og ástar til mannkyns og náttúru og fyrirmyndin er Kristur.  Hirðishlutverkið er ekki sindrandi leiðtogahæfileikar með yfirburðastöðu þess sem leiðir og blindar hópinn sinn í glýjunni sem stafar frá leiðtoga.

Kraftur og kærleikur

Það býr kraftur í hjörð sem finnur afl sitt og styrk í trausti til hirðis sem leiðir til framtíðar, í ofurþreyttri veröld í baráttu við heimsfaraldur sem er ekki enn á enda þarf kraft og vissu um samfylgd og örugga höfn.

Líkingin af góða hirðinum, sögunni sem við lögðum upp með í upphafinu hér áðan, er okkur hug- og hjartfólgin. Ekki aðeins af því við þekkjum gömlu fallegu myndina sem ég nefndi hér í upphafi ,né af því að við séum endilega svo brött og kvik öll í dag að fara að leita týndra sauða lífsins,  heldur fremur vekur það okkur góða tilfinningu öryggis.  Við vitum að okkar verður leitað.

Líf í hjörð Guðs er líf sem geymir von í veðrum lífsins sem stundum eru svo hörð og óvægin að okkur fallast hendur   Hirðishöndin er rétt til okkar, vekur með okkur öryggi sem við þráum öll hver sem við erum og hvar sem við erum í veröldinni.

Guðspjall sunnudagsins í Jóhannesarguðspjalli er líking.
Sagan kunna um hirðinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina, leitar og finnur.
Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi en sá sem kemur inn um dyrnar er hirðir sauðanna. Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum og sauðirnir heyra raust hans og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út. Þegar hann hefur látið út alla sauði sína fer hann á undan þeim og þeir fylgja honum af því að þeir þekkja raust hans. En ókunnugum fylgja þeir ekki heldur flýja frá honum því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.“
Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En menn skildu ekki hvað það þýddi sem hann var að tala við þá.

Því sagði Jesús aftur: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna. Allir þeir sem á undan mér komu eru þjófar og ræningjar enda hlýddu sauðirnir þeim ekki. Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig mun frelsast og hann mun ganga inn og út og finna haga. Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.    Jóh.  10.1-10