Hátíðarhljómar við áramót 30. desember kl. 17 og 31. desember kl. 16 - ATH: Breytta tíma

30. desember 2018

Hátíðarhljómar við áramót 2018


30. desember kl. 17 og Gamlársdag 31. desember kl. 16


 

Hátíðartónlist fyrir 2 trompeta og orgel.
Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir hinum sívinsælu áramótatónleikum undir yfirskriftinni "Hátíðarhljómar við áramót" í 26. sinn í ár og að þessu sinni eru það tveir afburða ungir íslenskir trompetleikarar sem koma frá New York og París til að færa okkur hátíðarstemmningu áramótanna í samleik við Klais orgelið.
Á efnisskránni eru glæsileg verk eftir Clarke, Francescini, Manfredini, Torelli, Albinoni, Charpentier and J.S. Bach ( Tokkata og fúga í d-moll).

Flytjendur eru Baldvin Oddsson trompetleikari, Jóhann Nardeau trompetleikari og Björn Steinar Sólbergsson orgelleikari.

Vegna mikilla vinsælda og eftirspurnar er nú annað árið í röð boðið upp á aukatónleika þann 30. desember.

Aðgangseyrir: 4.500 kr. 50% afsl. fyrir námsmenn, öryrkja og félaga í Listvinafélagi Hallgrímskirkju, 10% afsl. fyrir 70 ára og eldri.

Miðasala er í Hallgrímskirkju inn í verslun og í s. 510 1000 milli kl. 9 - 16:30, við innganginn fyrir tónleika og einnig á midi.is.



Jóhann Nardeau stundaði tónlistarnám við Skólahljómsveit Kópavogs, Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík og þaðan lauk hann burtfararprófi árið 2006.

Jóhann ákvað ungur að helga líf sitt tónlistinni og hlotnaðist í júní árið 2007, eftir aðeins eins árs framhaldsnám í París, „La Medaille d’Or” (Gullverðlaunaprófið) frá Conservatoire National de Région de Rueil-Malmaison þar sem Eric Aubier var aðalkennari hans. Vorið 2013 lauk hann svo mastersprófi frá Parísarkonservatoríinu CNSMDP með hæstu einkunn, en þar nam hann hjá Antoine Curé, Laurent Bourdon, Bruno Nouvion, Clément Garrec og Pierre Gillet. Sem meistaraverkefni hljóðritaði Jóhann geisladiskinn „Söngur Bóreasar” með fjórum norrænum verkum eftir tónskáld sem öll eru á lífi í dag. Á árunum í Parísarkonservatoríinu hlaut Jóhann viðurkenningar í alþjóðlegu trompetkeppnunum í Búdapest (2009) og Moskvu (2011).  Í febrúar 2013 hlaut Jóhann Íslensku tónlistaverðlaunin í flokknum Bjartasta vonin. Á Íslandi hefur hann oft komið fram sem einleikari og hefur í handraðanum mörg helstu einleiksverk sem samin hafa verið fyrir trompet.

Í Frakklandi er hann virkur meðlimur m. a. í metal-rokk hornaflokknum Cu2+, Kammersveitinni Sécession Orchestra, Paris Mozart Orchestra og Wunderhorn kammerhópnum í París sem sérhæfir sig í flutningi á verkum J. S. Bachs. Auk þess hefur Jóhann leikið „freelance” með fjöldamörgum hljómsveitum. Má þar nefna Hljómsveit Parísaróperunnar, Fílharmóníusveit franska útvarpsins (Radio-France), Orchestre de Paris, Kammersveit Parísar og Ensemble Intercontemporain. Frá 2013 til 2015 gegndi Jóhann stöðu 1. trompetleikara í Orchestre des Lauréats du Conservatoire. Frá 2017 hefur Jóhann einnig starfað sem trompetkennari við Tónlistarskólann í Sèvres í nágrenni Parísar.

 

Baldvin Oddsson hóf trompetnám í Tónskóla Sigursveins fimm ára gamall og lauk þaðan framhalds- og burtfararprófi með tónleikum í Seltjarnarneskirkju 10 árum síðar. Framhaldsnám stundaði hann í Bandaríkjunum, m.a. hjá trompetvirtúósnum Stephen Burns í Chicago og San Fransisco og útskrifaðist frá Manhattan School of Music í NY í desember 2016. Baldvin vann keppni ungra einleikara hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur nokkrum sinnum leikið einleik með hljómsveitinni auk þess að leika margoft með trompetdeild hljómsveitarinnar.

Síðla árs 2010 var Baldvini boðið að koma fram í útvarpsþættinum From the Top á vegum National Public Radio í Bandaríkjunum, en þátturinn er sendur út á um 250 útvarpsstöðum víðsvegar um landið. Við sama tækifæri hlaut Baldvin hin eftirsóttu Jack Kent Cooke Young Artist verðlaun. Þar að auki hefur Baldvin víða komið fram á tónlistarviðburðum í Evrópu og Norður Ameríku og hlotið fjölda viðurkenninga. Hann var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2013 sem Bjartasta vonin. Baldvin hefur komið fram í Hallgrímskirkju við ýmis tækifæri, m.a. á Kirkjulistahátíð 2013 ásamt kennara sínum Steven Burns, á Alþjóðlegu orgelsumri 2017 og 2018 og Hátíðarhljómum við áramót á Jólatónlistarhátíð 2017 á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju.

Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík og tekur virkan þátt í blómlegu listastarfi kirkjunnar. Hann er einnig skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik.

Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann markvisst að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.

Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammerhljómsveit Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geisladiska, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS, en sú hljóðritun hlaut einróma lof gagnrýnenda.

Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Þá hefur hann hlotið listamannalaun 1999 og 2015.