Hátíðartónleikar í tilefni af 30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju

28. október 2016

Hátíðartónleikar í tilefni af


30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju


29. október, laugardag kl. 19.


30. október, sunnudag kl. 17.


 

HRÍFANDI BAROKKSVEIFLA OG EUROVISIONSTEFIÐ Í ALLRI SINNI DÝRÐ!

Hátíðlegur lúðraþytur og pákuslög ásamt glæsilegum söng og hljóðfæraslætti fylla hvelfingar Hallgrímskirkju þegar Mótettukór Hallgrímskirkju ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju ( áður Den Haag) flytja glæsilegu hátíðarverkin Fanfare og Te Deum eftir Charpentier og Messu nr. 1 í F-dúr eftir J.S. Bach á hátíðartónleikum í tilefni af 30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju, en kirkjan var vígð 26. október 1986. Tónleikarnir verða laugardaginn 29. október kl. 19 og sunndaginn 30. október kl. 17.

Einsöngvarar eru

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzosópran, Auður Guðjohnsen alt, Oddur A. Jónsson bassi, Thelma Sigurdórsdóttir sópran og Guðmundur Vignir Karlsson tenór og stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Einsöngvararnir hafa allir tengst listastarfi Hallgrímskirkju um árabil og eru þrír þeirra m.a. meðlimir í Schola cantorum.

Upphafsstef forleiksins að Te Deum eftir franska barokkmeistarann M.A. Charpentier er hin heimsþekkta tónlist sem allir þekkja sem kynningarstef í útsendingum Eurovision. Lofsöngurinn (Te Deum) er hrífandi verk, dæmigert fyrir tónlist barokktímans, þar sem kór og einsöngvarar skiptast á að flytja textann við fjölbreyttan hljómsveitarundirleik, þar sem ólíkir litir blásturshljóðfæranna, trompeta, óbóa og hinna viðkvæmu blokkflauta undirstrika stemmningar lofsöngsins.

Messa í F-dúr er heillandi meistaraverk sem J.S. Bach byggði á völdum köflum úr öðrum verkum sínum og skiptast þar á glæsilegir kórar og gullfallegar aríur. Verkið er ein af fjórum svokölluðum lúterskum messum sem Bach setti saman í kringum 1740. Fullyrða má að þær séu meðal minnst þekktu meistarasmíða hins fullþroska Bachs og hefur F-dúr messan til að mynda aldrei áður hljómað á tónleikum á Íslandi.

Upphafsverkið á tónleikunum, Marche de triomphe (Sigurmars) eftir Charpentier, kemur öllum í hátíðarskap.

Það verður því sannkölluð hátíðarstemmning í Hallgrímskirkju um kosningahelgina!

Tónleikarnir eru á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju. Miðasala í kirkjunni og á http://midi.is

miðaverð: 5.900 kr / 4.900 kr fyrir eldri borgara

50% afsláttur fyrir nemendur 25 ára og yngri, öryrkja og félaga í Listvinafélaginu