Hugvekja í heimsfaraldri

20. mars 2020


Fordæmalausar aðstæður á föstutíma kirkjunnar. Smit og veikindi, sóttkví og einangrun.
Ef við förum aftur um aldir þá getum við rifjað upp aðra göngu, Móse að leiða fólkið sitt frá Egyptalandi á Guðs vegum. Þar hittum við fyrir fólk sem leggur í eyðimerkurgöngu á erfiðum tímum. Óvissugöngu.

Finnst okkur þessir dagar ekki vera hálfgerð eyðimerkurganga eða frekar óvissuganga?
Það góða er að allir leggjast á eitt, stefna í sömu átt. Leiðin okkar saman liggur til lausna og lausnar, bata og birtu.
En við söknum snertingar, nærveru ástvina, öryggisins og frelsisins til að vera, snerta, faðmast og heilsast. Hallgrímskirkja saknar fólksins sem hér alla daga kemur sem pílagrímar á ferð, söfnuður og ferðafólk. Saknar allra þeirra sem koma til bæna og í messur miðvikudagsins og sunnudagsins. Tónlistin hljóðnar og raddirnar hljóðna en ljósið logar á ljósberanum í kirkjunni og þangað geta allir komið svo lengi sem fjarlægðin er örugg og dyr kirkjunnar standa opnar. Kannski finnum við líka ráð til að geta boðið til kirkjunnar okkar á netinu heima við eldhúsborðið í tölvunni þar sem Hallgrímskirkja býður þér inn.
Guð er hér, Guð er þar, Guð er líka í sóttkvínni, í sóttvörnum og almannavörnum, í kertaljósinu í eldhúsinu heima, á einmanalegum stöðum þar sem við óttumst, í erli heimilis sem er í dag vinnustaður þeirra sem þar búa, skóli, skrifstofa, banki, tæknifyrirtæki, kirkja. Guð er þar og vakir yfir lífinu, leiknum og starfinu.
Við hittumst aftur öll í vorinu, reynslunni ríkari, til að eiga samfélag í húsi Guðs, ganga saman til altaris, hlusta og taka þátt í sálmasöng, spjalli og bæn, heilsast í friðarkveðju.
Þangað til kveðja og blessunaróskir úr Hallgrímskirkju með orðum Jesú úr Jóhannesarguðspjalli:

„Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“