Hvað á ég að gera?

Ungi maðurinn spurði: „Hvað á ég að gera…?“ Hvernig var svar Jesú? Í messunni í Hallgrímskirkju 4. október sem hefst kl. 11 mun Sigurður Árni Þórðarson skýra Jesúsvarið og ræða lífsstefnuna í prédikunni. Hann þjónar fyrir altari ásamt sr. Leonard Ashford og messuþjónum. Félagar úr Mótettukórnum syngja. Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgelið. Barnastarfið hefst á sama tíma. Umsjón Inga Harðardóttir, Rósa Árnadóttir og Sólveig Anna Aradóttir.

Sálmar

243 Lát þitt ríki, ljóssins Herra

7 Ó, hvað þú, Guð, ert góður

534 Ég veit um himins björtu borg

18 Í gegnum lífsins æðar allar

47 Gegnum Jesú helgast hjarta

267 Kristur, sem reistir þitt ríki á jörð

Textar þennan sunnudag, sem er 18. sunnudagur eftir þrenningarhátíð eru þessir:

Lexía: 5Mós 10.12-14

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel? Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Pistill: 1Jóh 2.7-11

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína. Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Guðspjall: Mrk 10.17-27

Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“

Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“

Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“