Jesús í Hallgrímskirkju

12. nóvember 2020
Hver var fyrirmynd andlits Jesú á Kristsmynd Einars Jónssonar? Fyrirmyndin var ekki mennsk, en Einar heillaðist af því andlitsfalli sem Tórínó-líkklæðið opinberaði. Það var trú margra að það hefði verið líkblæja Jesú. Einar var þó ekki að leita að eftimynd eða ljósmynd af Jesú heldur mat hann gildi hins stíliseraða, handanmenska andlitsfalls klæðisins. En hendurnar eru íslenskar. Þegar Einar var að gera Kriststyttuna árið 1945 var hópur af ungum mönnum að vinna í garðinum hjá honum og Einar bað um að einn unglinganna sæti fyrir. Sá var Guðmundur J. Guðmundsson, síðar verkalýðsleitogi. Hann sagði síðar í dagblaðsviðtali. „Ég var náttúrulega ekki fyrirmyndin að andlitinu en hendurnar, framhandleggirnir og hálsinn eru nákvæmlega eins og á mér. Ekki einu sinni ljósmynd væri líkari.“

Nánar um Kristsmynd Hallgrímskirkju í myndbandi Sigurðar Árna að baki þessari smellu.