Jóhannes heiðraður

09. september 2021
Á aðalfundi Hallgrímssafnaðar, sunnudaginn 5. september síðastliðinn, var Jóhannes Pálmason heiðraður sérstaklega. Jóhannes hefur þjónað sóknarnefnd Hallgrímskirkju lengur en allir aðrir nefndarmenn frá því sóknin var stofnuð fyrir liðlega áttatíu árum. Jóhannes var formaður sóknarnefndar í þrjá áratugi. Hann hefur nú látið af störfum sem formaður og framkvæmdanefndarmaður. Við formennsku tók Einar Karl Haraldsson. Vegna óska starfsfólks og sóknarnefndarfólks verður Jóhannes þó áfram sem varamaður í sóknarnefnd næstu tvö ár. Á aðalfundinum ræddi sr. Sigurður Árni Þórðarson um feril hans við kirkjuna og sagði meðal annars: „Jóhannes hefur verið öflugur leiðtogi sóknarnefndar og haft afskipti af öllum helstu stórmálum Hallgrímskirkju. Hann var lykilmaður sögu Hallgrímskirkju í áratugi, m.a. við stjórnvölinn þegar Klaisorgelið var keypt og unnið var að stórviðgerð á turni kirkjunnar, lóð kirkjunnar mótuð og Hallgrímstorg gert og haldið áfram með frágang kirkjunnar. Jóhannes kom rekstri, fjármálum og skipulagi í stjórnýslu kirkjunnar í gott horf sem og skjalamálum og skjalageysmlu. Hann beitti sér fyrir að sóknarnefnd fundaði reglulega og skipulega. Hann opnaði sóknarnefnd og tryggði að varamenn væru kallaðir til funda og öxluðu ábyrgð sem fullveðja sóknarnefndarmenn en ekki aðeins menn til vara. Jóhannes hefur alla tíð verið öflugur samstarfsmaður prestanna og starfsfólksins, hlustað vel á skoðanir samstarfsfólks og beitt sér fyrir að fé væri til eiginlegra kirkjustarfa en færi ekki allt í steinsteypu, tæki og viðgerðir. Hann hefur reynt hugmyndir, spurt opinna spurninga þegar álitaefni komu upp og þorði líka að segja nei þegar illa áraði. Jóhannes er hugsjónamaður og hefur alla tíð þorað að hugsa stórt, heimilaði stórvirki og studdi ötullega kirkjustarfið og þmt listastarfið. Starf í sóknarnefnd er ólaunað sjálboðastarf. Í Hallgrímskirkju er formennska krefjandi og afar tímafrek vegna umfangs þjónustu kirkjunnar. Það var Hallgrímssöfnuði og Hallgrímskirkju mikil gæfa að Jóhannes Pálmason leiddi starf sóknarnefndar í þrjá áratugi á miklum uppbyggingartíma. Lof sé honum og þökk sé Jóhönnu konu hans fyrir stuðning og störf í þágu kirkjunnar. Í starfi Jóhannesar Pálmasonar hefur verið gjöful guðsþjónusta.“

Meðfylgjandi mynd tók SÁÞ af Jóhannesi þegar hann skilaði kirkjulykli sínum. Hina myndina tók ISÓ á aðalfundi sóknarinnar þegar Jóhannes var heiðraður. Jóhanna Árnadóttir, kona Jóhannesar, stendur honum við hlið.