Jólin hans Hallgríms

26. nóvember 2020
Í sjötta sinn býður Hallgrímskirkja leikskóla- og grunnskólabörnum í Reykjavík og nágrenni, að koma í heimsókn á sýninguna Jólin hans Hallgríms í Hallgrímskirkju í aðdraganda jólanna.

Í heimsókninni er rölt um kirkjuna og sagt frá því hvernig jólin voru fyrir 400 hundruð árum á Íslandi. Verkefnið hefur mælst vel fyrir og fengið góð viðbrögð en í fyrra komu tæplega þúsund börn í heimsókn. Í heimsókninni fá börnin stutta endursögn úr bókinni Jólin hans Hallgríms eftir Steinunni Jóhannesdóttur. Bókin segir frá undirbúningi jólanna hjá Hallgrími Péturssyni þegar hann var ungur drengur.

Í heimsókn í Hallgrímskirkju verður sóttvarnarreglum fylgt. Snertifletir verða sprittaðir á milli heimsókna og fylgst verður með fjölda fólks og barna vegna fjöldatakmarkana, eins og við á hverju sinni.

Sýningin Jólin hans Hallgríms er fyrir börn á öllum aldri. Hún byggir á samnefndri bók Steinunnar Jóhannesdóttur og myndum Önnu Cynthiu Leplar og var jólasýning Þjóðminjasafnsins árið 2014. Þar eru myndir og textar úr bókinni ásamt gamaldags munum sem vísa til sögunnar.

Hér er kynningarmyndband fyrir Jólin hans Hallgríms:

https://www.youtube.com/watch?v=Af_PyLuvYGg