Jól í janúar

06. janúar 2023
Fréttir

Úkraínumenn komu í Hallgrímskirkju á þrettándanum. Sr Laurentiy frá Kiev las og tónaði fagurlega frá altari kirkjunnar og Alexandra Chernyshova söng. Þegar komumenn heyrðu orð og söng á eigin tungu brostu þau út að eyrum. Tár sáust á hvörmum og friður settist að í sálum fólks. Jólin voru komin!

Tímatal austurkirkjunnar er annað en okkar gregoríanska. Jólin eru samkvæmt júlíönsku tímatali í janúar. Nærri tvö hundruð komu í Hallgrímskirkju til að taka þátt í aftansöng jóla. Það var eins og maður væri hrifinn burt úr iðandi, reykvísku föstudagskvöldi inn í aðra menningu og í aðra helgisiði. Það var hrífandi að verða vitni að tilbeiðslunni þrátt fyrir flugeldabombur utan kirkju sem minntu á stöðugar loftárásir Rússa á Úkraínu. Fólk kom og fór, foreldrar sinntu ungbörnum sínum og friður umvafði alla.

Birgir Þórarinsson alþingismaður fór til Úkraínu og hafði síðan milligöngu um að koma á tengslum við úkraínsku kirkjuna. Sr. Laurentiy, munkur og prestur var sendur til Íslands til að þjóna löndum sínum. Það tók hann sólarhring að komast frá heimaslóð og alla leið til Íslands. Úkraínska rétttrúnaðarkirkjan var hluti umdæmis patríarkans Kiril í Moskvu en vegna fylgispektar hans við stjórn og stríðsrekstur Pútíns hefur úkraínska kirkjan snúið sér til grísk-orþodoksku kirkjunnar. Patríark hennar og Cleantes umdæmisbiskup hennar á Norðurlöndum hafa myndað góð tengsl við þjóðkirkjuna íslensku og messuðu í Hallgrímskirkju í október 2017. Því var leitað til kirkjunnar um að vera fang fyrir jólahald Úkraínumanna.

Í Saltaranum er spurt: „Hvernig ættum við að syngja Drottins ljóð í öðru landi?” Úkraínumenn tilbiðja þó þeir séu á flótta og kirkjan er samhengi kynslóðanna. En þegar nágrannaþjóð hefur ráðist á heimalandið, flekkað það blóði þúsunda kreppir að. Það hefur löngum verið sagt að enginn sé trúlaus í skotgröfunum. En alþingsmenn, Íslendingar og íslensk kirkja styðja frelsisbaráttu og trúariðkun Úkraínumanna og annarra sem þarfnast stórs fangs. Lífið er alls konar en Guð elskar alla. Gleðileg jól í janúar og megi friður Guðs ríkja meðal manna og þjóða.

t&m sáþ