Kennileiti kirkjunnar

Þankar á vígsludegi Hallgrímskirkju, 26. október 2020 og við ártíðardag Hallgríms Péturssonar  27. október 2020

„Þótt það sé heimsfaraldur í gangi þá megum við ekki missa mikilvægasta kennileiti miðborgarinnar, sem er lífið...“

Voru orð ungs  framkvæmdamanns, Geof­frey Þ. Huntingdon-Willi­ams, annar eiganda Priksins í miðborg Reykjavíkur í viðtal við Fréttablaðið sl. föstudag. 

Orð sem mig langar að setja í samhengi við Hallgrímskirkju á  hljóðlátum vígsludegi í heimsfaraldri þegar við finnum sem aldrei áður að við megum ekki missa sjónar á þessu mikilvægasta kennleiti alls.

Lífið er kennileiti kirkjunnar
Kirkja er hús sem stendur vörð um lífið með vítt til veggja og hátt, dyr sem standa öllum opnar án hindrana.
Kristin kirkja er skjól, kjarninn er boðskapur Krists um framtíð og kærleika.


Hjartsláttur kirkjunnar og lífsmark er fólk sem leitar Guðs, lífið er Guð sem leitar þín.
Kerti sem logar í kirkjunni er bænalogi,  kveiktur af þeim sem leitar í ljósið og bænina.
Það loga alltaf ljós í Hallgrímskirkju, kennileiti hennar er líf.

Eigum við aðeins að líta inn í kirkjuna,  kannski tendra kertaljós í bæn ?

Láta verkefni og annríki dagsins og kvöldsins hverfa frá okkur um stund.  Eigum við ekki bara að leyfa flögrandi hugsunum okkar að hverfa upp í hvelfingarnar og augunum að hvarfla um gráhvítar flétturandir hvelfinganna í kirkjuskipinu í Hallgrímskirkju.

Skipið sem flytur okkur um úfin höf og lygnur hversdagins í samfylgd með frelsaranum sem sjálfur svaf rólegur í bátunum þegar allir aðrir voru að farast úr áhyggjum.
Skyldi það segja okkur eitthvað ?

Síðan renna saman í huga okkar í dag fortíð og nútíð.  Hallgrímur og kirkja í Hallgrímskirkju.
Það er saga, reynsla og lofgjörð sem flögra um  í hvefingum kirkjunnar og ljóðum og sálmum hans sem þessi kirkja er kennd við.

Kirkjan í krafti og elsku þess boðskapar sem hún stendur fyrir mætir hverri manneskju á þeirra leið sem hún er í hvert skipti.  Kirkjuhvelfingar eiga ekki svar við spurningunni um tilvist Guðs eða draga sannfæringu í efa en þær rúma stórar spurningar.
Kirkjan er rými trúar og efa, nærveru, þagnar eða þúsund orða sem flögra um milli hvelfinganna, kynslóða, fólks.  Kirkjan skilgreinir ekki fólk, skiptir því í flokka eða spyr um trúarsannfæringu heldur er öllum opin.  Kennileiti hennar er líf á öllum tímum.

Hjartsláttur..

Hallgrímur yrkir um í 47. Passíusálmi hvernig er að horfa í gengum Jesú helgast hjarta í himininn upp, og það er eins og hvelfingin sé innra með honum

„Gegnum Jesú helgast hjarta
í himininn upp ég líta má..“

Lífið fer sjaldnast eins og maður ætlar og það mótar þetta merka skáld, þessa manneskju.  Margþættur eins og hvelfingar kirkjunnar okkar sem taka við ákallinu, lofgjörðinni, sorginni, gleðinni, andvarpinu og færa um bjart rýmið.

„Guðs míns ástar birtu bjarta
bæði fæ ég að reyna og sjá.“

Þannig talar Hallgrímur sem helgidómurinn á Skólavörðuholtinu er kenndur við.
Hann missti ekki sjónar á kærleika Guðs eða birtu þegar hann var í öldufaldi veikinda og örbirgðar.
Hafði erindi og ástríðu og von, trúarhita og sannfæringu og í þessari hugmynda- og hugsjónakvörn aldanna þar sem alltaf er verið að reyna að skilja kjarnann frá hisminu , úrelda og eyða  þar lifa orðin sem byggja á hjartslætti fyrir lífinu.  Allt þetta gerir orðin hans sístæði og lifandi enn í dag.Við skulum leggja leið okkar aftur út á Skólavörðuholtið – út um háar dyrnar og við röltum út – kennileiti lífsins eru víða...

..og gleymum ekki að fela góðum Guði kirkjuna okkar, líf okkar, vonir, hamingju, mótlæti og meðbyr.  Biðjum hann að varðveita þau sem við elskum,  þau sem við höfum áhyggjur af, samferðafólk og fjölskyldur.
Biðjum hann að vaka yfir helgidómnum okkar, skjólinu sem í fegurð sinni minnir okkur á leiðsögn Guðs og vernd, er kennileiti lífsins og lífið kennileiti hennar....