Kirkjuhlaup og hlauparablessun

26. desember 2022
Fréttir

„Hvar er hlaupablessunin“ spurðu skokkarar kirkjuhlaupsins á öðrum degi jóla. Þeim var bent að fara að ljósberanum í kirkjunni. Þar mynduðu þau röð og réttu fram hendur þegar að þeim kom. Presturinn tók um þær og svo fengu þau blessun fyrir vegi og hlaup lífsins. Sumar hendurnar voru þurrar og heitar en aðrar rakar af svita. En öll augu ljómuðu. „Manstu eftir mér?“ spurðu einn hlauparinn. „Þú fermdir mig.“ Í hópnum var sóknarnefndarformaður sem ég þekkti og margir kunningjar voru í röðinni. Allt fólk á hlaupum sér til heilsubótar og styrktar í lífinu. Ferðamennirnir tóku myndir af þessum fríða hlauparaflokki á blessunarleið. Svo hlupu þau út um dyrnar á suðuhlið kirkjunnar og Björn Steinar hélt áfram að laða fram blessandi orgelhljóma.

Trimmklúbbur Seltjarnarness efnir árlega til kirkjuhlaups á öðrum degi jóla. Kristinn Ingvarsson hafði samband við starfsfólk Hallgrímskirkju eins og annarra kirkna. Víða var efnt til viðburða til að taka vel á móti hlaupurunum. Hlaupararnir komu að Hallgrímskirkju um 10:45. Björn Steinar var að æfa sig fyrir tónleika dagsins svo þeir komu inn í ómglatt guðshús. Sr. Sigurður Árni stóð við ljósberann og blessaði hlauparana. Hlaupið er ekki aðeins að kirkjum þjóðkirkjunnar heldur farið að helgidómum sex mismunandi trúfélaga. Þetta er því sammannlegt og samkirkjulegt hlaup. Vegalengdin er um 15 kílómetrar. Hlaupið var frá Seltjarnarneskirkju þegar sr. Bjarni Þór Bjarnason hafði ávarpað hópinn og síðan farið að rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, Landakotskirkju, Dómkirkjunni, Fríkirkjunni, Kirkju sjöunda dags aðventista, Hallgrímskirkju, Háteigskirkju, Kirkju óháða safnaðarins, Fossvogskapellu, Friðrikskapellu, kapellu Háskóla Íslands, Neskirkju og svo aftur að Seltjarnarneskirkju.

Engill Drottins varðveiti þig á öllum hlaupum þínum og vegum þínum í lífinu.

sáþ