Sunnudagurinn 10. ágúst 2025 var merkisdagur í lífi safnaðarins í Grímsey þegar ný Miðgarðakirkja var vígð af Guðrúnu Karls Helgudóttur, biskupi Íslands. Við það tækifæri voru einnig helgaðar tvær nýjar kirkjuklukkur og formlega afhentar Miðgarðakirkjusókn, í stað þeirra sem bráðnuðu í kirkjubruna 21. september árið 2021. Klukkurnar eru gjöf frá Hallgrímssöfnuði í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og velunnurumog markar gjöfin táknræna brú milli söfnuða, svæða og kynslóða.
Nýju klukkurnar voru steyptar hjá Royal Eijsbouts í Asten í Hollandi – sömu konunglegu klukkusteypunni og steypti klukkur Hallgrímskirkju. Þær eru úr hágæða bjöllubronsi, með kólfi úr stáli, og hljóma í tónunum Dís³ og F³. Þvermál þeirra er 37 og 32 cm og þyngd um 35 og 32 kg – sömu stærðar og klukkurnar sem bráðnuðu.
Á klukkurnar eru letruð fjögur ártöl:
Auk þess prýða þær þessi orð:
HLJÓMAR FRÁ HEIMSKAUTSBAUGI – sem undirstrika að í þúsund ár hefur hljómur kristinna klukkna borist yfir Grímsey, og nú mun sá hljómur heyrast áfram um ókomin ár.
Meðvitund um andlega arfleifð og trúarlega dýpt er sterk í þessari gjöf. Á stærri klukkuna er grafið:
HJARTANLEG ÁSTAR ÞAKKARGJÖRÐ – úr þriðja Passíusálmi Hallgríms Péturssonar.
Á minni klukkunni stendur:
BÆNIN MÁ ALDREI BRESTA ÞIG – úr þeim fjórða, hvatning Krists til lærisveina sinna.
Þannig hljóma nú orð Hallgríms frá heimskautsbaugnum.
Gjöfin er jafnframt falleg endurgjöf: Árið 1971 var klukknaspil Hallgrímskirkju vígt og meðal 29 klukkna í því er ein merkt með svofelldum hætti: Frá Grímseyjingum. Gefandi V.F. Að baki skammstöfuninni var að öllum líkindum Vigfús Friðjónsson, síldarsaltandi, útgerðar- og athafnamaður, m.a. í Grímsey.
Það var í ljósi þeirrar gjafar, og persónulegra tengsla milli söfnuðanna, sem Hallgrímssöfnuður ákvað að hefja söfnun fyrir nýjum klukkum í Miðgarðakirkju. Söfnunin fór fram í messum og með tónleikahaldi þar sem norðlenskt tónlistarfólk og heimamenn lögðu sitt af mörkum auk þess sem söfnuðurinn reiddi fram fé.
Áður en vígsluathöfn kirkjunnar hófst í Grímsey á sunnudag afhenti Einar Karl Haraldsson nýju klukkurnar Alfreð Garðarsyni, formanni sóknarnefndar Miðgarðakirkjusóknar, með sérstöku staðfestingarbréfi, sem undirritað er af honum sem formanni sóknarnefndar Hallgrímssafnaðar, og Irmu Sjöfn Óskarsdóttur sóknarpresti. Bréfinu lýkur með orðunum: „Megi blessun fylgja hljómum klukkna Miðgarðakirkju í Grímsey!“ Séra Oddur Bjarni Þorkelsson, Gísli Gunnarsson vígslubiskup og Guðrún Karls Helgudóttur, biskupÍslands önnuðust helgun klukknanna ásamt séra Eiríki Jóhannssyni og Grétari Einarssyni kirkjuhaldara. Fulltrúar Hallgrímskirkju voru auk þeirra við vígsluathöfn kirkjunnar Guðrún Hlíðdal Gunnarsdóttir, formaður Kvenfélags Hallgrímskirkju og Sigríður Helga Olgeirsdóttir kennari.
Myndir og myndband frá viðburðinum má finna hér að neðan.
Grétar Einarsson kirkjuhaldari Hallgrímskirkju tók myndir og myndband af samhringingunni í Grímsey og Sólbjörg Björnsdóttir tónleika- og kynningarstjóri Hallgrímskirkju tók myndbandið af samhringingunni í Reykjavík.