Kolefnisjöfnun í Skálholti

17. september 2019
Á Degi náttúrunnar 16. september og innan Tímabils sköpunarverksins í kirkjunni var haldið í Skálholt síðdegis með langferðabíl frá Snæland Grímssyni. Um 20 manns frá Hallgrímskirkju, 11 frá Biskupsstofu með biskup í fararbroddi og 3 úr Breiðholtssókn voru með í för.
Í Skálholti tóku á móti okkur Kristján Björnsson vígslubiskup, séra Halldór Reynisson, formaður umhverfisnefndar kirkjunnar, og Hreinn Óskarsson, skógræktarstjóri Suðurlands.
Við fengum fræðslu um grunnatriði í plöntun, svokallaða gróðursetningargeispu, sem er mikið galdraverkfæri,  og tilkomumikl plöntuvesti sem settu svip á mannskapinn. Svo héldum við út á afmarkaðan reit fyrir ofan Sumarbúðir þjóðkirkjunnar þar sem 200 birkiplöntur, 200 furugræðlingur, 200 sitkagreni plöntur og 200 asparstilkar voru gróðursettir í rofabörð og áburði dreift yfir. Að lokinni gróðursetningu sameinuðust allir í helgunarathöfn eftir nýju messusniði sem sérsamið hefur verið til athafna af þessu tagi. Veðrið var bjart og sólríkt, loftið tært og svalt og haustfegurðin alltumlykjandi. Síðan var haldið í Sumarbúðir í ljúffengan kvöldskatt hjá Skálholtskokki þar sem Helga K. Diep úr Hallgrímssöfnuði lagði til sætmeti eins og henni einni er lagið. Komið tilbaka að Hallgrímskirkju um kl. 21 eins og áætlað var.

Þessi ferð í Skálholt var einstaklega vel heppnuð og mun lengi geymast í minni. Hér er um að ræða brautryðjendastarf sem framhald  verður á og breiðist vonandi út meðal safnaða. Á næsta ári verður væntanlega hægt að reikna út nákvæmt kolefnisspor fyrir Hallgrímssöfnuð og planta í samræmi við það. Ég tel þó öruggt við höfum amk jafnað kolefnismetin fyrir árið 2019 með gróðursetningunni í Skálholti eins og umhverfisnefnd Hallgrímskirkju ætlaðist til og sóknarnefnd ákvað á síðasta ári.

Frá Hallgrímskirkju fóru m.a. Júlíana, Bára, Ása, Helga, Sesselja, Guðrún , Ásdís, Einar Karl, Steinunn, Ásthildur, Jóna, Dagný, séra Irma Sjöfn, Jóna Guðrún, Sveinn Helga, Hjördís og Broddi.

Einar Karl