Kristaltært

Á röltinu enn og aftur meðfram Elliðaánum.  Ferðalögin okkar eru einfaldari en áður, nær okkur.  Gætum þegið sól og suðræna sanda og sérstaklega  þegar allt er í frostböndum nema hugurinn sem getur farið víða rétt eins og hið rennandi vatn. Tært, kristaltært eins og skírnarvatn í skál.  Náttúran, kirkjan, skírn og hin gegnsæju skil milli himins og jarðar.  Það hefur stundum verið sagt að staðir þar sem við upplifum nærveru Guðs rétt eins og okkur finnist jörð og himinn mætast að þeir séu gegnsæir eins og tært bergvatnið í læknum.   Við ferðumst ekki á þessa staði heldur hnjótum óvart um þá svona kannski bara á röltinu meðfram tærum læknum.....

... í sviphendingu kallast tært vatnið á við kristaltæra skírnarskál á skírnarfonti Leifs Breiðfjörð í Hallgrímskirkju.  Kristall sem situr á svörtum styrkum undirstöðum, samsettur af list listamannsins og brýtur ljósið sem kemur frá himnum gegnum glugga kirkjunnar og brotnar síðan í tæru vatninu. Gegnsætt tjald milli himins og jarðar, staða og tíma. .............. og svo færum við okkur að ánni, Jórdan.   – skýin víkja til hliðar, himnarnir opnast.
Rödd af himnum og Guði er niðri fyrir að benda okkur á frelsara heimsins sem stígur upp úr ánni.  Dúfa sem flögrar frá himni í sólargeislum dagsins. Nærvera Guðs, skín í gegnum gegnsætt tjald milli himins og jarðar, einnig á þessum stað...

...aftur í Elliðaárdalinn svellkaldi lækurinn í dalnum kallast á við mollulegt Jórdan fljótið.  Kuldinn svelgir í sig myndina af suðrænum sólargeislum og fuglarnir kroppa ósýnilega fæðu mannsaugum úr frosinni jörðinni.  Gargandi krummager er að rífast um brauðrusta sem endar í að vindurinn hrífur úr gogginum og góssið skellur á jörðinni.  Sköpun Guðs og lífsbarátta dalsins við tæran lækinn.

Mótsagnir í veröldinni undir himni Guðs, ylur og napur kuldi, skuggar og ljós, krummar og dúfur, kurr og garg, stærra og minna, tært og gruggugt.  Vetur sem breytist í vor smátt og smátt, ótti sem verður að von eftir undarlegt liðið ár.   Og við ferðumst inn úr kuldanum í hlýju hússins..Heimili sem er á sama hátt kirkja dagsins.  Rammi um bænir okkar,  hugsanir okkar, gleði og sorg, helg jörð, gegnsær staður milli himins og jarðar.

Þar sem kristalsskálin sem sætur, gómsætur búðingurinn var borinn fram í deginum áður verður stundum skírnarskál, kristaltært vatnið glampar á kolli og heimilið verður heilagur staður.  Við munum hið þunna gegnsæja tjald milli himins og jarðar.   Og við skynjum að Guð er þar, eins og í kirkjunni eða við ána Jórdan.

Takk Guð fyrir að vera niðri fyrir í veröldinni, að við sjáum þig og allt verður kristaltært
Vaktu yfir stöðunum okkar, lífi okkar og lífsláni.