Kærleikur eða kerfi

19. október 2021
Prédikanir og pistlar  1. sunnudagur eftir trinitatis:
   Þriðja lestraröð
   Lexía: 1Sam 20.35-43
   Morguninn eftir gekk Jónatan út á vellina eins og þeir Davíð höfðu ákveðið og hafði ungan dreng með sér. Hann sagði við drenginn: „Farðu og finndu örvarnar sem ég skýt.“ Drengurinn hljóp af stað og hann skaut ör fram hjá honum. Þegar drengurinn kom þangað sem Jónatan hafði miðað örinni kallaði Jónatan til hans: „Liggur örin ekki lengra frá þér?“ Jónatan kallaði enn fremur á eftir drengnum: „Áfram nú, flýttu þér, stattu ekki kyrr.“ Drengurinn tók örina upp, sneri aftur til húsbónda síns og grunaði ekkert. Jónatan og Davíð vissu einir hvað um var að vera. Síðan fékk Jónatan drengnum, sem með honum var, vopn sín og sagði: „Farðu með þetta til borgarinnar.“ Þegar drengurinn var farinn reis Davíð upp úr fylgsninu við steininn, laut Jónatan þrisvar og varpaði sér til jarðar. Þeir kysstust og grétu báðir en Davíð sýnu meir. Jónatan sagði við hann: „Far þú í friði. Drottinn er ævarandi vitni okkar og afkomenda okkar að því sem við höfum svarið hvor öðrum við nafn hans.“

   Pistill: 1Þess 4.1-8
   Að endingu bið ég ykkur, bræður og systur, og hvet ykkur í Drottni Jesú til að breyta eins og þið hafið numið af mér og þóknast Guði eins og þið reyndar gerið. En takið enn meiri framförum. Þið vitið hvaða fyrirmæli ég gaf ykkur frá Drottni Jesú. Það er vilji Guðs að þið verðið heilög. Hann vill að þið haldið ykkur frá óskírlífi, að sérhvert ykkar temji sér að halda líkama sínum í helgun og heiðri en ekki í losta eins og heiðingjarnir er ekki þekkja Guð. Og enginn skyldi ganga á hlut eða blekkja nokkurn bróður eða systur í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt eins og ég hef áður sagt ykkur og varað ykkur við. Ekki kallaði Guð okkur til saurlifnaðar heldur helgunar. Sá sem lítilsvirðir þetta lítilsvirðir þess vegna ekki mann heldur Guð sem gefur ykkur sinn heilaga anda.

   Guðspjall: Matt 21.33-44
   Enn sagði Jesús: „Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Þegar ávaxtatíminn nálgaðist sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá. Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: Þeir munu virða son múinn. Þegar vínyrkjarnir sáu soninn sögðu þeir sín á milli: Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann og náum arfi hans. Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
   Hvað mun nú eigandi víngarðsins gera við vínyrkja þessa þegar hann kemur?“
   Þeir svara: „Hann mun vægðarlaust tortíma þeim vondu mönnum og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.“
   Og Jesús segir við þá: „Hafið þið aldrei lesið í ritningunum:
   Steinninn sem smiðirnir höfnuðu
   er orðinn að hyrningarsteini.
   Þetta er verk Drottins
   og undursamlegt í augum vorum.
   Þess vegna segi ég ykkur: Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess. Sá sem fellur á þennan stein mun sundur molast og þann sem hann fellur á mun hann sundur merja. 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Dýrt er Drottins orðið.  Þessi setning kom í huga mér þegar ég las textana sem við höfum nú heyrt lesna á þessum Drottins degi. Jesús segir þessa dæmisögu sem sannarlega er ekki á neinu guðsbarnamáli. Segir frá grimmilegu athæfi, ágirnd sjálfselsku, barsmíðum og drápum.

Það þekkja það líka flest þau sem yndi hafa af til dæmis ljóðalestri og raunar hvaða lestri sem er að oft og raunar oftast nær þá býr meira í textanum en það sem sést í fyrstu.

Textinn hjá Matteusi guðspjallamanni sem er guðspjall dagsins í dag kemur fyrir undir lok ritsins. Eftir að Kristur hefur haldið innreið sína í Jerúsalem og farið upp í hið mikla musteri, þar sem hann velti um borðum víxlarnanna og gagnrýndi allan kaupskapinn sem þar var stundaður. Hann tekur til við að halda ræður og segja dæmisögur. Þær eru beittar og hvassar.

Hann hefur ferðast um landið, læknað, boðað og blessað. Hverjir snérust harðast gegn honum? Voru það ekki þeir sem áttu best að vita, þeir sem þekktu ritningarnar, kunnu lögmálið og sálmana og orð spámannanna. Engir hefðu átt að standa því nær að skynja og skilja að það sem þarna var að gerast var einmitt í anda ritninganna og fyrirheita spámannanna. En í stað þess að fagna og gleðjast og lofa Drottinn þá snúast þeir til varnar. Kerfið sem byggt hefur verið upp er þeim í hag og innan þess þá hafa þeir áhrif, njóta virðingar og tryggs lífsviðurværis og jafnvel auðs.

Þessi dæmisaga og fleiri orð einkum á þessum stað lýsa sárum vonbrigðum frelsarans. Þeir sem höfðu bestu aðstöðuna til þess að skynja og skilja, velja að hafna og halda sig við það kerfi sem fyrir var og tryggði þeirra eigin hagsmuni.

Þetta er sannarlega ekki nýtt í sögunni, var það ekki þá og er það vissulega ekki nú um stundir. Alls staðar stendur yfir barátta um hagsmuni. Það er gömul saga og ný að þau sem komast í aðstöðu sem veitir góða afkomu, þau leita yfirleitt allra ráða til þess að tryggja sér hana til framtíðar.

Hvað eigum við þá að segja, eru kerfin svona vond, þurfum við að henda þeim og búa til ný. Við þekkjum það úr öllum áttum að það sem notað er þarfnast viðhalds og endurbóta, en um leið segir sagan okkur að byltingar hafa verið gerðar og nýir aðilar komist til valda og ný kerfi verið innleitt. Niðurstaða hefur þó oft verið sú að kjör og aðstæður hins almenna borgara hafa ekki batnað og jafnvel oftar en ekki versnað stórlega. Hin klassíska dæmisaga þessa fyrirbæris er til dæmis sagan Dýrabær eftir Georges Orwell.

Við skulum nú aðeins gefa gaum að ritningarlestrum dagsins. Við heyrðum orð Páls postula um mikilvægi þess að þess sjáist staður að trúin á Jesú Krists hafi haft áhrif á líf og lífshætti þeirra sem gengið hafa í söfnuðinn.  Það er ekki að ástæðulausu að menn hafi frá upphafið ákveðið að bréf hans ættu erindi í helgiritasafn hinnar nýju trúar sem kenndi sig við Jesú Krist. Rit hans eru eitt það elsta sem varðveist hefur og geymir útleggingu nánast samtímamanns á því hvaða merkingu það hafi að Kristur kom í heiminn. Hann er uppnuminn, hann er innblásinn og leggur allt í sölurnar fyrir málstaðinn. Hann er líka barn síns tíma, hann lifir og hrærist innan um fólk sem hefur aðra trú og aðra siði. Hann er gagnrýninn á margt og sumt fyrirlítur hann sem hann veit að viðgengst. Við þurfum því ekki endilega að vera sammála öllum hans palladómum um eitt og annað í hans samtíð, enda þekkjum við varla nógu vel til að öllu leyti til þess að geta lagt mat á ýmsa siði eða ósiði þess tíma.

Það sem við getum fyllilega tekið til okkar og á við á öllum tímum það er sú sannfæring hans og hvatning að trúin á Jesú Krist veki með fólki löngun til að lifa heiðarlegu og kærleiksríku lífi. Sú gjöf sem trúin er hafi göfgandi áhrif og losi um fjötra ágirndar og sjálfselsku. Þetta er sígilt viðfangsefni allra manna að takast á við sjálfan sig og sínar kenndir, sína kosti og galla.  Það er ekki alltaf auðvelt og getur kallað á erfið uppgjör og átök.

Þetta sjáum við í fyrri ritningarlestrinum í dag. Þar er okkur fært stutt brot úr stórri sögu. Þar sem sagt er frá í fyrr Samúelsbók frá aðdraganda að valdatöku og konungdómi Davíðs. Sú persóna sem þarna er á vissan hátt í lykilhlutverki er einmitt Jónatan. Jónatan var sonur Sáls hins fyrsta konungs Ísraelsmanna. Hann er því út frá þeim forsendum, erfðaprinsinn. Sá sem ætti að taka við krúnunni að föður sínum gengnum.

Davíð er bara fátækur smaladrengur hjá föður sínum. Davíð er kallaður til hirðarinnar sökum þess að hann kunni að leika á hljóðfæri og það létti þunga og oft sjúka lund konungsins. Með þeim Davíð og Jónatan takast miklir kærleikar og djúp vinátta.

Þar kemur að Sál tekur að tortryggja Davíð og óttast að hann hyggist ræna völdum í ríkinu. Hann leitast við að tortíma Davíð og í pistlinum sem lesinn var þá er Davíð í felum og Jónatan fer með þjóni sínum til að senda honum leynileg skilaboð, hvort honum sé óhætt að snúa aftur eða hvort réttast sé að vera áfram í felum.

Í þessu samhengi sjáum við í Jónatan dæmi um mann sem stendur frammi fyrir erfiðu vali. Á hann að taka afstöðu með hinu ríkjandi kerfi sem þar að auki hefur ætlað honum sjálfum veigamikinn sess eða á hann að velja hina mannlegu hlið. Taka afstöðu með vináttunni, kærleikanum, já lífinu því þarna var um líf og dauða að tefla.

Jónatan velur að fórna sínum persónulegu hagsmunum fyrir líf vinar síns, því segja má að hann hafi örlög hans í hendi sér.

Ef við reynum að draga saman skilaboð þessa texta ritningarinnar inn í okkar samtíma og líf þá sjáum við að þarna er konungssonurinn Jónatan lykilpersóna og raunar fyrirmynd.

Dæmisaga Jesú birtir okkur leiguliða víngarðsins, þeir hafa það gott af afurðum hans og eru orðnir makráðir og miklir með sig þess vegna hafa þeir nú ákveðið að verja þessa auðlind sína með öllum tiltækum ráðum. Þeir láta nú sem þeir séu að verja sína eigin eign treysta því að brátt muni það gleymast að þeir hafa hana á leigu.

Við skiljum boðskap Krists þannig að hann hafi leyst okkur undan íþyngjandi lögmálum og gefið okkur frelsi, frelsi til að hugsa og lifa. En um leið fengum við ábyrgðina í fangið og hann bendir okkur á að skylda okkar sé fyrst og fremst við kærleikann við eigum að elska vissulega okkur sjálf og þau sem nærri okkur standa en um leið líka er náunginn okkar hver sá eða sú sem á vegi okkar verður og þarf á hjálp að halda.

Nú stöndum við og raunar heimurinn allur frammi fyrir stórum vanda. Við fellum hann undir safnheitið umhverfismál. Um leið má spyrja er þetta eitthvað sem á að vera til umfjöllunar á sviði trúarinnar, hvers vegna er kirkjan með þessi mál á dagskrá? Því er í senn bæði mikilvægt og auðvelt að svara. Biblían leggur fra fyrstu blaðsíðu áherslu á stöðu mannsins í sköpunarverkinu, maðurinn er vissulega hluti af hinu náttúrulega samhengi veraldarinnar. Hann er hryggdýr hann er spendýr en nú er staðan hins vegar sú að hann hefur skilið sig frá hinu náttúrulega umhverfi. Með getu sinni hefur hann lagt undir sig jörðina, hann hefur farið eins og engisprettufaraldur um hana alla og étið upp öll gögn og gæði sem fundist hafa, allt annað hefur mátt undan að láta. Trúin hins vegar leggur áherslu á ábyrgð okkar vegna þess sem við erum fær um.

Hin sorglega staðreynd er sú að við höfum að mestu leyti þekkingu og getu til að snúa við þeirri óheillaþróun sem við höfum sjálf skapað. Það sem vantar er vilji, löngun, kjarkur til að viðurkenna að við eigum ekki víngarðinn, okkur ber að skila honum í hendur næstu kynslóðar ósködduðum. Við þurfum að minnast þess að við höfum skyldum að gegna gagnvart náunga okkar. Og þessi náungi getur verið fjölskylda á lítili eyju í Kyrrahafi sem er um það bil að hverfa í hafið. Það getur veri íbúi sem horfir yfir allt sitt brunnið upp og horfið i skógareldi. Það getur verið heill þjóðflokkur sem enga uppskeru hefur fengið árum saman vegna ofurhita og þurka sem eru að breyta, ekki bara þeirra héraði heldur heilu löndunum í eyðimörk. Og það getur verið íslenskt býli undir brattri hlíð sem er nú  orðin ógn, þótt ekki hafi þar fallið skriða í manna minnum.

Jónatan steig út úr öryggi og tryggum framtíðarhorfum til þess að vernda líf vinar síns. Hann valdi að elska fremur en að festast í lífsstíl velmegunar og óhófs.

Þetta er þess vegna spurning sem við hvert og eitt stöndum frammi fyrir, hvað er það sem skiptir okkur mestu máli, hvaða málstað viljum við kjósa, ekki með orðum  eða krossi á blað, heldur með fótunum, með því sem við gerum eða gerum ekki, með því sem við kaupum eða kaupum ekki.

Hefur það áhrif á líf okkar og sjálfsmynd að hafa meðtekið trúna á Jesú Krist þegið frelsi hans og kærleika?

Biðjum þess að lífinu sjálfu bætist liðsauki öflugra félaga sem þora að breyta því sem breyta þarf svo jafnvægi náist og fjölbreytni blómstri.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verða mun um aldir alda amen.