Kórstjóri ráðinn til Hallgrímskirkju

17. ágúst 2021


 

Steinar Logi Helgason hefur verið ráðinn kórstjóri við Hallgrímskirkju. Starfið var auglýst til umsóknar nú í sumar og var sérstök matsnefnd skipuð til ráðgjafar við sóknarnefnd. Aðalverkefni kórstjórans er að byggja upp og stjórna nýjum Kór Hallgrímskirkju. Hann mun vinna í nánu samstarfi við organista og presta kirkjunnar og taka virkan þátt í helgihaldi og tónlistarlífi Hallgrímssafnaðar.

Steinar Logi er með meistaragráðu í „Ensamble Conducting“ frá The Royal Danish Academy of Music, Bakkalárs gráðu í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands og kantorspróf frá Tónskóla þjóðkirkjunnar. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hann talsverða reynslu af stjórn kóra og viðburða í tengslum við tónlist. Hann stofnaði meðal annars nýjan kór við Háteigskirkju, 25 manna kammerkór. Að auki stofnaði hann kór við Listaháskólann þegar hann var þar við nám.

Steinar Logi er okkur vel kunnur hér í Hallgrímskirkju því hann hefur bæði leyst af við orgelleik í helgihaldi í kirkjunni auk þess að spila á orgelsumri undanfarin ár. Hann hefur þegar hafið störf við kirkjuna. Kórprufur verða í lok ágúst og munu æfingar Kórs Hallgrímskirkju hefjast í byrjun september.

Hallgrímssókn býður Steinar Loga hjartanlega velkominn til starfa.