Kvöldkirkjan - friðar- og bænakerti tendruð

25. febrúar 2022
Fréttir
Kvöldkirkja - ljósberi Hallgrímskirkju - mynd sáþ

Kvöldkirkja sunnudagskvöldið 27. febrúar kl. 20-22. Íhugun á heila og hálfa tímanum. Tónlist: Kira, Kira. Friðar- og bæna kerti tendruð.

Kvöldkirkjan er samstarfsverkefni Hallgrímskirkju og Dómkirkjunnar í Reykjavík.

Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi dagkirkjunnar. Kvöldkirkjan er öðru vísi en hefðbundnu helgistundirnar, sem fólk hefur áður upplifað. Fólk er ekki bundið við kirkjubekkina, heldur hefur möguleika að ganga um kirkjurýmið, setjast niður, færa sig og finna nýjan stað.

Þögn er einkenni kvöldkirkjunnar. Þau, sem koma í kvöldkirkju, ganga inn með kyrrlátum hætti. Fólk talar um hversdagsmál sín utan kirkjunnar. Tónlistarflutningur í kvöldkirkjunni er ekki eins og á tónleikum, heldur þjónar aðeins íhugun og slökun. Eitt hljóðfæri er stundum notað eða orðlaus söngur mannsraddar. Hreyfanleiki er stíll kvöldkirkjunnar. Fólk situr ekki lengi, heldur rölta margir um kirkjuna í kyrrð. Sumir eru lengi inni í kirkjunni og aðrir stutt. Mörgum hentar jafnvel að leggjast á kirkjubekki eða á dýnur til að stilla sinn innri mann og tengja við tákn og hljóma kirkjunnar. Sumir kveikja á kerti til íhugunar eða sem bænakerti. Aðrir krjúpa einhvers staðar í kirkjunni.

Mynd sáþ