Langlundargeð

18. október 2020
Búðarferð dagsins, skáskýt mér milli hillna, verð vandræðaleg með grímuklætt andlitið og gufuslegin gleraugun.  Afsakandi augnaráð – ekki koma nær,  við erum að vanda okkur og passa upp á hvert annað, ekki satt.
Teygi mig í hrökkbrauðspakkann og
hugsa um leið „Hefði kannski átt að panta á netinu ?“
Niðurstaðan er að það er gott að sjá fólk, finna nærveru sem hefur reyndar breyst í  einhverskonar fjarræna samveru og samkennd.



Reyni um leið að gera mér í hugarlund hvernig væri að vera í mannþröng, 1000 manns,  rekast upp við aðrar manneskjur, hafa ekki pláss, megi hitta gamla vini og faðmast, smella kossi á kinn, blaðra og frussa.
Lífið er í einhverjum hamskiptum aftur og aftur þessa dagana.  Tölur, hlutfall og stuðlar leggja mat á veruleika okkar og væntingar um leið og afkoma margra er áhyggjuefni, atvinna í hættu og fyrirtæki.

Á sama tíma tímum faraldurs og fjarlægðar,  þá er í okkur ótti við að gera eitthvað ekki rétt, valda smiti, smitast.  Kannski bara best að halda sig heima, vera ekki fyrir og passa að eiga spritt og grímur.  Það reynir á langlundargeð fólks og sköpunarkraft að halda út meðan dagarnir styttast og myrkrið verður eins og stórt teppi sem vefur daginn æ meira og meira inn í sig.

Sunnudagar eru án venjubundinshelgihalds í kirkjunni en tíminn gengur sinn vanagang og ég er sannfærð um að smátt og smátt færist hversdagurinn og sunnudagurinn í sitt fyrra horf.
Langlundargeð – orðið er áleitið í dag.

Sunnudagurinn í dag er dagur kirkjunnar sem er tileinkaður þeim sem sinna heilbrigðisþjónustu.
Þeim öllum  sem annast okkur þegar við erum veik, slösuð, vanmegna.
Þeim sem vitja okkar heima og hlúa að okkur.  Öllum þeim sem sinna rannsóknum til að gera veröldina betri og öruggari.
Þau öll sýna mikið langlundargeð.

„Hjartans þakkir þið öll sem standið vaktina af kærleika og trúmennsku.  Við eigum ykkur mikið að þakka á þessum tímum sem endranær.“

Ein af guðspjallsfrásögunum sem tilheyra þessum sunnudegi í kirkjunni segja frá veikindum, langlundargeði, kærleika og lækningu m.a.
Við erum stödd við vatnslauginni Betesda í Jerúsalem.  Við okkur blasir vefur af súlnagöngum, 5 gangar,  fullir af veiku fólki sem allt bíður eftir kraftaverki við laugina. Hver verður fyrstur í röðinni þegar lækningin er í boði. Fólk reynir að skáskjóta sér, koma sér að vatnslauginni Betesda.  Þau bíða  i ofvæni eftir að engill stígi í vatnið og gárur myndist á vatninu.  Bíða eftir kraftaverki.

Vanlíðan þeirra sem liggja við laugina er áþreyfanleg, vonbrigðin eins og svartur skuggi en ljós vonarinnar feykir burt þessum skuggum af og til.  Þarna hafði hinn veiki legið í 38 ár.  Langlundargeð þrotið, vonin orðin veik, enginn sem stóð vörð um að koma honum að lauginni eins og segir í guðspjallinu.
Jesús gengur fram hjá skuggaslegnum súlnagöngunum og sér þann sem enginn annar sér.

Við flytjum okkur frá súlnagöngunum fortíðar inn á sjúkrahús nútímans með þverskurði mannlífsins, fólk með mismunandi erindi, vanlíðan og veikindi.
Af kærleika og ósérhlífni sinnir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu störfum sínum.

Fyrirmyndina eigum við í verkum hans sem gekk um súlangöng Betesda og leitaði ekki uppi þann sem var vinalegur og þakklátur heldur náungann sem loksins þegar kraftaverkið gerðist þá var eins og hann hefði sjálfur misst af einhverju.  Hann rölti í burtu með rekkjuna sína og vissi lítið hvað hann átti að gera við nýfengna heilsu.

Í frásögu dagsins í dag talar hljóðlátt verk Jesú inn í vonleysi, ótta, úrtölur, uppgjöf og í miðju frásögunnar er hann sem kannski hafði forðum komið að lauginni upptendraður af væntingum um breytingar, lækningu.  Lítið gekk og kannski leið tíminn og smátt og smátt breyttist spenna og eftirvænting í pirring og vonleysi.  Langlundargeðið hvarf inn í einhverskonar biturleika.

Engillinn gáraði vatnið, aðrir upplifðu kraftaverk og lækningu en ekki hann.  Hann var löngu hættur að vænta eða vona.  Úr mannþrönginni inn í vonleysi læðist sá sem gat breytt, vildi breyta.  Meðan allir mæna á laugina, bíða engils og hræringa og missa kannski um leið af því sem skiptir máli.   Hljóðlátri nærveru, sem hverfur jafnfljótt og hún varð.  Jesús kom og hann hvarf hljótt í mannþröngina.

Hefurðu orðið vör við þessa nærveru í þínu lífi.  Örskotsstund, huggun og kannski smágert kraftaverk, fínlegt.  Svo máist myndin og gleymist eða...

Finnum og þökkum nærveru Krists í þessari veröld, þolinmæði og langlundargeð.  Hljóða eflandi návist kærleika hans sem er okkur fyrirmynd.
Hugsum um leið um öll þau önnur sem eru til staðar fyrir okkur, sýna okkur kærleika , langlundargeð og umhyggju þegar við þurfum á því að halda að vatnið gárist og englar himins birtist.  Að lífið verði gott og samt.
Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“

Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.

En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum....

Jóhannesarguðspjall 5.kafli vers 1-13