Loreto Aramedi á Alþjóðlegu orgelsumri laugardaginn 14. júlí kl. 12

10. júlí 2018
Laugardaginn 14. júlí kl. 12 leikur Loreto Aramendi, aðalorganisti hins fræga Cavaillé-Coll orgels Santa Maria basilíkunnar í San Sebastian á Spáni, verk eftir Bach, Ligeti, Cabanilles, Duruflé ásamt Pílagrímakór Wagners úr Tannhäuser sem Franz Liszt umritaði fyrir orgel.

Miðaverð er 2.000 kr.

Miðasala í Hallgrímskirkju opnar klukkutíma fyrir hverja tónleika en einnig má kaupa miða á midi.is.



Loreto Aramendi er prófessor við F. Escuderois tónlistarháskólann í San Sebastian og aðalorganisti Santa María del Coro basilíkunnar þar sem hún leikur á Cavaillé-Coll orgel fra 1863. Frá árinu 2014 hefur hún tekið þátt í endurbyggingu nokkurra orgela bæði í Frakklandi og á Spáni. Árið 2015 gaf hún út tvo diska hljóðritaða við Cavaillé-Coll orgelið í kirkjunni hennar og árið 2017 gaf hún aftur út tvo diska hljóðritaða við Cavaillé-Coll orgelið í Saint Ouen of Rouen Abbey með umritunum Louis Robilliards. Hún hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskólann í San Sebastian, hafnarbæ rétt fyrir sunnan landamæri Spánar og Frakklands. Hún stundaði framhaldsnám í orgelleik fyrst við Tónlistarháskólann í Bayonne, Frakklandi og síðan í Lyon þar sem kennarar hennar voru m.a. Jean Boyer og J. Von Oorttmeren. Seinna bætti hún einnig við sig fimm ára námi í píanó- og semballeik við Þjóðartónlistarháskólann í París. Þá sótti hún meistaranámskeið, m.a. hjá Radulescu, W. Jansen og Claudio Brizzi. Þá er hún einnig með prófgráðu í sálfræði frá Háskóla Baskahéraðsins (UPV).

Loreto Aramendi hefur komið fram á alþjóðlegum tónlistarhátíðum, víða um Evrópu auk Bandaríkjanna og Argentínu. Hún heldur einleikstónleika en kemur jafnframt fram með mismunandi hljóðfærahópum sem orgelleikari, píanóleikari eða semballeikari. Auk þess hefur hún starfað með basknesku sinfóníuhljómsveitinni í mörg ár og m.a. hljóðritað tvo diska með hljómsveitinni.