Messa 29. desember kl. 11.00

27. desember 2019

Messa sunnudaginn 29. desember kl. 11.00.  Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum.  Organisti er Sólveig Anna Aradóttir.  Félagar úr Schola cantorum leiða söng og flytja tónlist.
Guðspjall sunnudagsins er um tvær af konunum í Nýja testamentisins, Maríu móður Jesú og
Önnu Fanúelsdóttur, ekkjuna sem dvaldi háöldruð í musterinu.  Boðskapur jólanna, María, Anna  og samtalið við samtímann verða í brennidepli.

Svo syngjum við eftirfarandi jólasálma:





Textar sunnudags milli jóla og nýárs eru eftirfarandi
Lexía: Jes. 63.7-9
Ég vil minnast velgjörða Drottins,
syngja Drottni lof fyrir allt
sem hann gerði fyrir oss,
hina miklu gæsku Drottins við Ísraels ætt
sem hann sýndi henni af miskunn sinni
og miklum kærleika.
Því að hann sagði:
„Þeir eru þjóð mín,
börn sem ekki bregðast,“
og hann varð þeim frelsari
í öllum þrengingum þeirra.
Það var hvorki sendiboði né engill
heldur hann sjálfur sem frelsaði þá.
Í kærleika sínum og miskunn endurleysti hann þá,
hann tók þá upp
og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.

Pistill: Gal 4.1-5
Með öðrum orðum: Alla þá stund sem erfinginn er ófullveðja er enginn munur á honum og þræli þótt hann eigi allt. Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma er faðirinn hefur ákveðið. Þannig vorum við einnig, er við vorum ófullveðja, í ánauð heimsvættanna. En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli – til þess að hann keypti lausa þá sem voru undir lögmáli og við yrðum börn Guðs.

Guðspjall: Lúk 2.33-40
Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn.
Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“

Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hún hafði lifað sjö ár með manni sínum þegar hann dó og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögurra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.
Og er þau höfðu lokið öllu, sem lögmál Drottins bauð, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.