Messa og barnastarf 11. september kl. 11

09. september 2016


Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Organisti er Hörður Áskelsson. Umsjón með barnastarfi hefur Inga Harðardóttir, æskulýðsfulltrúi. Kirkjukaffi eftir messu í Suðursal.

Verið velkomin.

Textar: 

Lexía: Job 19.25-27
Ég veit að lausnari minn lifir
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
Eftir að þessi húð mín er sundurtætt
og allt hold er af mér mun ég líta Guð.
Ég mun líta hann mér til góðs,
augu mín munu sjá hann og engan annan.
Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.

Pistill: Ef 3.13-21
Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.

Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.
En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 7.11-17
Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.
En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“
Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.