Messa og barnastarf 19. febrúar kl. 11 - Biblíudagurinn

17. febrúar 2017


Messað er í Hallgrímskirkju kl. 11 og allir velkomnir. Þessi sunnudagur er fjölbreyttur, annar sunnudagur í níuviknaföstu, biblíudagur Þjóðkirkjunnar og einnig konudagurinn.

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt Hólmfríði Margréti Konráðsdóttur, djákna. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Organisti er Hörður Áskelsson. Umsjón með barnastarfi hafa Rósa, Sunna og Guðjón.

Kaffisopi eftir messu. Hlökkum til þess að sjá ykkur.

Textar:

Lexía: Jes 40.6-8
Einhver segir: „Kalla þú,“
og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“
„Allt hold er gras
og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.
Grasið visnar, blómin fölna
þegar Drottinn andar á þau.
Sannlega eru mennirnir gras.
Grasið visnar, blómin fölna
en orð Guðs vors varir að eilífu.“

Pistill: Heb 4.12-13
Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. Enginn skapaður hlutur er Guði hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.

Guðspjall: Mrk 4.26-32
Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“
Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“