Messa og barnastarf sunnudaginn 17. apríl kl. 11

14. apríl 2016


Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Eldri félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.

Umsjón með barnastarfinu hefur Inga Harðardóttir. Kaffisopi eftir messu.

Verið hjartanlega velkomin til messu.

Lexía: Jes 43.16-19
Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið
og braut yfir hin ströngu vötn,
hann sem leiddi út vagna og hesta
ásamt öflugum her
en þeir liggja kyrrir og rísa ekki aftur,
þeir kulnuðu út eins og hörkveikur.
Minnist hvorki hins liðna
né hugleiðið það sem var.
Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,
sjáið þér það ekki?
Ég geri veg um eyðimörkina
og fljót í auðninni.

Pistill: Heb 13.12-16
Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. Því að hér höfum við ekki borg er stendur heldur leitum við hinnar komandi. Með hjálp Jesú skulum við því án afláts færa Guði lofgjörðarfórn, ávöxt vara er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

Guðspjall: Jóh 16.16-23
Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“
Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Lærisveinarnir spurðu: „Hvað merkir þetta: Innan skamms? Við vitum ekki hvað hann er að fara.“
Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður.