Messa og sögustund 14. ágúst kl. 11

11. ágúst 2016


Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja.

Organisti er Hörður Áskelsson. Umsjón með sögustundinni hefur Inga Harðardóttir. Kaffisopi eftir messu.

Verið hjartanlega velkomin.

Textar:

Lexía: Jes 29.17-24
Er ekki skammt þar til
Líbanon verður að aldingarði
og Karmel talið skóglendi?
Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók
og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.
Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni
og hinir fátækustu meðal manna
munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels.
Kúgarinn verður ekki lengur til,
skrumarinn líður undir lok,
öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt
og þeim sem sakfella menn fyrir rétti,
þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu
og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali.
Þess vegna segir Drottinn,
sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs:
Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur
og andlit hans ekki framar að fölna
því að þegar þjóðin sér börn sín,
verk handa minna, sín á meðal
mun hún helga nafn mitt,
helga Hinn heilaga Jakobs
og óttast Guð Ísraels
og þeir sem eru villuráfandi í anda
munu öðlast skilning
og þeir sem mögla láta sér segjast.

Pistill: 2Kor 3.4-9
Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar.
Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.

Guðspjall: Mrk 7.31-37
Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú.
Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“