Messa og sögustund 19. júní kl. 11

17. júní 2016
Þessi sunnudagur er fjórði sunnudagur eftir þrenningarhátíð en að auki er þetta kvennréttindadagurinn. Í messunni verður einnig kveikt á kertum til að minningar um fórnalamba árásanna í Orlando og flóttamanna sem hafa farist á hafi.

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Organsti er Hörður Áskelsson. Inga Harðardóttir sér um sögustund fyrir börnin. Eftirleik leikur Thomas Ospital, organisti í St. Eustace kirkjunnar í París, Frakklandi. Kveikt verður á kertum. Kaffisopi eftir messu. Verið hjartanlega velkomin.

Textar:

Lexía: Jer 7.1-7
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Taktu þér stöðu við hliðið að húsi Drottins, flyttu þar þessa ræðu og segðu: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, sem gangið inn um þetta hlið til að tilbiðja Drottin. Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“

Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.

Pistill: Róm 14.7-13
Því að enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins. Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi. En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Öll munum við verða að standa frammi fyrir dómstóli Guðs. Því að ritað er: „Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skal hvert kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.“
Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér. Dæmum því ekki framar hvert annað. Hitt skuluð þið ákveða að verða trúsystkinum ykkar ekki til ásteytingar eða falls.

Guðspjall: Lúk 6.36-42
Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur.

Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“
Þá sagði Jesús þeim og líkingu: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.