Miðvikudagssöfnuðurinn í Hallgrímskirkju

12. mars 2019
Í Hallgrímskirkju í Reykjavík eru morgunmessur kl. 08.00 alla miðvikudaga, allt árið um kring. Hér kemur saman kjarni fólks á aldrinum 30 til 90, um það bil 15 – 25 í hverri viku, stundum fleiri, stundum færri. Hefðbundin messa í íslensku þjóðkirkjunni er oftast bundin við sunnudaga klukkan 11.00 og klukkan 14.00, en morgunmessur tíðkast innan hinnar Lúthersku evangelísku kirkju erlendis eins og til dæmis í Svíþjóð og í Þýskalandi.



Forsaga miðvikudagssafnaðarins í Hallgrímskirkju er sú, að sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrverandi Skálholtsbiskup kynntist morgunmessum í Langholtskirkju á sjöunda áratugnum þegar hann var ungur námsmaður í Háskóla Íslands og aftur þegar hann var í framhaldsnámi í Heidelberg í Þýskalandi. Fjörutíu árum síðar stofnaði hann morgunmessurnar í Hallgrímskirkju, sem var á þeim tíma sóknarkirkja sr. Kristjáns Vals. Hann fékk tvo starfsbræður sína til liðs við sig, sr. Árna Svan Daníelsson, sem var nýútskrifaður guðfræðingur og sr. Jón Helga Þórarinsson, þáverandi prest í Langholtskirkju. Árið var 2003 og var ákveðið að hefja fyrstu messuna á öskudaginn sem er upphaf lönguföstu.

Miðvikudagsmessurnar eru aðeins hálftími að lengd, en samt fullkomin messa. Söfnuðurinn hefur sjálfur mismunandi hlutverkum að gegna í messunum: einn flytur hugvekju, annar fer með bæn, þriðji er forsöngvari og fjórði aðstoðar við útdeilingu sakramentisins. Prestur þjónar við altarið, þar sem einungis vígðir mega undirbúa altarisgönguna. Forsöngvarinn velur tvo sálma sem sungnir eru í upphafi messu og á eftir friðarkveðjunni. Friðarkveðja er mjög mikilvæg, þar sem allir takast í hendur og heilsast og segja hver við annan: „Friður sé með þér“ og hinn svarar: „og með þér“.

Miðvikudagssöfnuðurinn er samfélag þar sem allir eru jafnir. Allir hafa hlutverki að gegna. Þarna koma saman trúsystkin og af trúarþörf til þess að fá andlega uppbyggingu og upplyftingu. Þetta er hópur sem biður fyrir hvert öðru, ber ábyrgð á hvert öðru og hjálpast að. Allir eru velkomnir í hópinn hvenær sem er. Morgunkaffið á eftir er einnig mikilvægt samfélag.

Það er gott að eiga hljóða stund í Hallgrímskirkju í byrjun dags áður en dagurinn tekur völdin og hugvekjan í messunni sé texti dagsins. Þar með fær fólk nesti út í daginn. Þegar söfnuðurinn er spurður um morgunmessurnar á miðvikudögum er svarið oftast: „Þetta er svo góð byrjun á deginum“ og „þetta er heilmikið nesti út í daginn“.

Skrifað af Birnu G. Hjaltadóttur, fyrrum kirkjuverði, þjóðfræðingi og ein af stofnmeðlimum miðvikudagssafnaðarins.