Nýja þýðing Passíusálmanna

Einar Karl Haraldsson: Ávarp á Hallgrímsdegi 27. október 2019

Kæri söfnuður, biskupar og sendiherrar Bretlands og Kanada!

Skyldi Hallgrím Pétursson hafa grunað þegar hann lauk Passíusálmum sínum árið 1659, fyrir 360 árum, að ekkert bókmenntaverk myndi verða prentað jafnoft á Íslandi og hans; nærri eitt hundrað sinnum þegar hér er komið sögu? Varla held ég - en hitt er víst að hann vissi með sjálfum sér, og hafði fengið staðfestingu á því, að verkið var gott. Og svo  öruggur um gæðin og erindið var Hallgrímur að hann fékk nokkrar mektarkonur á sinni tíð til þess að gerast umboðsmenn fyrir þessa guðrækilegu umþenkingu sína um „Herrans Jesú pínu og dauða“.

Á hinn bóginn má gera ráð fyrir því að honum hafi aldrei komið til hugar að hér á holtinu risi veglegasta guðshús á Íslandi honum og arfleifð hans til heiðurs og minningar. Né heldur að Passíusálmar hans yrðu þýddir á erlendar tungur.

Á sjöunda áratug síðustu aldar fól Sigurbjörn Einarsson biskup Hallgrímskirkju að gefa út Passíusálmana á erlendum tungumálum og naut hún til þess styrks úr Krisnisjóði. Út komu á vegum kirkjunnar ensk, þýsk, ungversk, norsk og dönsk þýðing. Þá gaf kirkjan út Passíusálmana á íslensku með ágripi af Píslarsögunni og skrá yfir allar útgáfur sálmanna eftir séra Ragnar Fjalar Lárusson. Einnig hafa útgefendur í öðrum löndum sýnt Passíusálmunum áhuga á ýmsum tímum og þeir hafa verið prentaðir á ellefu tungumálum og á sumum þeirra í nokkrum útgáfum.

Í Hallgrímskirkju og í Kirkjuhúsinu er alltaf einhver spurn eftir Passíusálmunum. Hluti þess mikla fjölda ferðafólks sem sækir Hallgrímskirkju heim er forvitinn um skáldið sem kirkjan er helguð. Svo er nú komið að þriðja prentun ensku útgáfunnar er uppseld og Passíusálmarnir á þýsku og dönsku á þrotum. Sóknarnefnd Hallgrímskirkju ákvað á síðasta ári að hefja útgáfu að nýju í samstarfi við Skálholtsútgáfuna og má segja að hvatinn að því hafi ekki síst verið að fyrir lá ný og framúrskarandi þýðing á ensku. Skipuð var sérstök útgáfustjórn sem í sitja ásamt mér séra Sigurður Árni Þórðarson, séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri kirkjunnar.

Þýðandinn Gracia Grindal var prófessor við Luther-stofnunina í St. Paul í Minnesota. Hún er sjálf ljóða- og sálmaskáld og hreifst af Passíusálmunum við rannsóknir á norrænni sálma- og kirkjutónlistarhefð. Hún hlaut viðurkenningu sóknarnefndar fyrir það, sem ég hika ekki við að kalla afrek, þegar hún var hér á ferð síðastliðið sumar. Í formála bókarinnar þakkar hún Karli Sigurbjörnssyni biskup fyrir ómetanlega aðstoð við þýðinguna, svo og Sigurði Sævarssyni tónskáldi og Margréti Eggertsdóttur, rannsóknarprófessor við Árnastofnun. Gracia Grindal er fyrsta konan sem þýðir Passíusálmana. Enn á ný hefur séra Hallgrímur eignast umboðsmann úr röðum kvenna.

Passíusálmarnir á ensku koma nú út í nýjum búningi. Í veglegri og litum prýddri kilju sem stingur í stúf við svörtu kápuna á fyrri útgáfum. Búningurinn hæfir þó vel vonarboðskap Hallgríms. Myndstefin í hönnun bókarinnar eru sótt í hið mikla glerlistaverk Leifs Breiðfjörðs yfir kirkjudyrum þar sem Opinberunarbókin og Píslarsagan koma við sögu og Hallgrím gefur að líta í einum rammanum. Ég vil koma sérstökum þökkum á framfæri við Leif fyrir að veita kirkjunni heimild til þess að vitna í myndverk hans með þessum hætti. Einnig á hönnuður þessarar bókar, Halla Sólveig Þorgeirsdóttir, heiður skilinn fyrir fallegt handverk. Við þökkum svo Eddu Möller, framkvæmdastjóra Skálholtsútgáfunnar, fyrir frábært samstarf.

Sendiherrar Bretlands og Kanada hafa gert okkur þann heiður að vera viðstaddir þessa athöfn á Hallgrímsdegi ásamt Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, Karli Sigurbjörnssyni biskupi og Leifi Breiðfjörð. Með þátttöku sendiherranna gefst okkur færi á að vekja athygli á þeirri ætlan okkar að ná til þeirra sem hafa áhuga á sálmaskáldskap og íhugun í enskumælandi löndum og þá ekki síst til Vestur-Íslendinga.

Your Excellencies, Ambassador of Canada to Iceland, Anne-Tamara Lorre and Ambassador of the United Kingdom to Iceland, Michael Nevin!  On behalf of the Parish Board, I cordidally welcome you to Hallgrímskirkja on the Hallgrim´s Day. It‘s a great honor towards us in the parish that you have accepted to receive a first copy of a new translation into English of the Hymns of the Passion by Hallgrímur Pétursson, to which legacy this church is indeed devoted. This gives us occasion to accentuate our wish to get readers in the English speaking world aquainted with the outstanding poetry and deep wisdom of Hallgrímur Pétursson. In fact, one could call Hallgrímur the Snorri of Christian legacy and hymnody in Iceland. Furthermore,  the translator, Dr. Gracia Grindal, has descriped how she draws heavily on the Anglo-Saxon linguistic tradition in her translation.

In Britain, many Icelanders live and work and in Canada and the United States of America, hundreds of thousands citizens nurture their Icelandic roots. Therefore, the Hymns of the Passion are very much a part of our common heritage. By virtue of the World Web and other means they will be made available in your countries.    I will now ask our pastors to hand over fresh copies from the printing shop to Your Excellencies. Please step forward!