Nr. 1

30. janúar 2019

Ef einhver brýtur af sér eða verður fyrir stórkostlegu áfalli - hvað er þá hægt að gera? Hvernig á að bregðast við ef allt fer í rugl á heimilum? Hvað er hægt að gera þegar hrun verður í þjóðfélagi? Hvað er vænlegast ef kreppur trylla stórar hreyfingar eða félög? Hvað gerir þú þegar eitthvað mikið gerist í lífi þínu? Þá þarf að stoppa, bregðast við af raunsæi og finna bestu útleiðina. Stundum þarf að taka u-beygju, viðurkenna vandann, iðrast og setja nýjar reglur. 





Í stað þess að leggja út af guðspjalli dagsins munum við, prestar Hallgrímskirkju, íhuga boðorðin næstu vikurnar. Boðorðin eru einstök. Þau hafa verið milljörðum manna leiðbeiningar í þúsundir ára. Þau hafa verið kölluð umferðarreglur lífsins. Boðorðin eru dýrmæti - ekki aðeins trúmönnum, heldur eru þau líka þættir í siðfræði og siðferði heimsbyggðarinnar. Andi þeirra hefur mótað mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og haft áhrif á löggjöf, mannskilning, hugmyndir um réttindi og réttlæti og hvernig við skiljum rétt og rangt. Boðorðin hafa verið eins konar vegprestar við lagagerð og samtal um hið réttláta þjóðfélag. En hvert er gildi þeirra nú? Hafa þau gildi í nútímasamfélagi? 





Fleiri lög eða innræti?





Í miðju efnahagshruninu fyrir rúmum áratug urðu deilur um leiðir út úr vandanum. Margir töldu, að skerpa yrði löggjöf og gera nýja stjórnarskrá til að fyrirbyggja hörmungar í framtíð. Jón Sigurðsson, sem um tíma var formaður Framsóknarflokksins, sagði þá að endurskoðun laga væri ekki sjálfgefin lausn vandans, en það myndi hjálpa ef fólk færi bara eftir boðorðunum! Það er þörf ábending. Það er ekki nóg að setja góð lög ef fólk er ósammála anda þeirra og fer ekki eftir þeim. 





Hvaða skoðun hefur þú á boðorðunum? Telur þú, að ef fólk lifir í anda boðorðanna megi vænta góðra mannasiða og blómstrandi þjóðfélags? 





Manstu fimmta boðorðið og manstu kannski alla röðina? Fyrstu þrjú boðorðin varða afstöðu manna til hins guðlega, en sjö seinni orðin eru um mannheim. Boðorðin eru í heild á tveimur stöðum í Biblíunni, í annari Mósebók tuttugasta kafla og síðan í fimmtu Mósebók í fimmta kafla. Og kaflarnir eru ólíkir.





Boðorðin eru sett inn í söguframvindu eyðimerkurgöngunnar, en þau endurspegla lífshætti borgarsamfélags en ekki siðfræði og siðferði umreiknandi hirðingjaflokks. Boðin eru hluti af regluverki þjóðar og eins og við vitum þarf heilbrigt þjóðfélag samfélagssáttmála, leikreglur um samskipti og úrlausn mála. Þessi fáu boðorð eru aðeins nokkur af miklum reglubálki hebresku þjóðarinnar. Og reglurnar, sem þeir settu sér, eru raunar mörg þúsund. Það er ekki aðalatriði, að þú munir hvort bann við morðum sé á undan eða eftir banni við hjúskaparbrotum. Það er ekki aðalatriði að þú þekkir, munir eða skiljir þessi boð, heldur að andi þeirra móti til góðs og verði innræti þitt. 





Kristnir menn hafa um aldir kennt, að boðorðin séu mikilvæg en þó ekki skuldbindandi reglur. Lög, boð og skyldur eru ekki miðja eða höfuðatriði kristins átrúnaðar heldur Guð. En gruflandi trúmaður spyr hins vegar um afleiður sambandsins við þennan Guð, sem alltaf er túlkaður sem guð réttlætis og umhyggju. Trú er tengsl við heimshönnuðin og því er eðlilegt að spurt sé hvernig kerfið, sem þessi Guð hefur skapað, virki best. Trú er aldrei tæki í þágu eigin dýrðar, heldur samband við Guð. Guð er ekki sjálfhverfur heldur tengslavera, sem elskar. Þar með er gefið, að trú mótar siðferði, trú hvetur til réttlætis og trú kallar á siðfræði. Trú varðar allt líf einstaklings, þjóðfélags og náttúru, stjórnmál, samskipti á heimili, uppeldi og skólamál. Trú er ekki sprikl í mórölskum möskvum, heldur afstaða sem elur af sér mannskilning, heimsskilning, náttúrusýn, friðarsýn og allt mögulegt annað varðandi tengsl við fólk og gildir einu hvaða trú eða kynhenigð það hefur eða hvernig það er á litinn. Auðvitað er atferli trúmanna með ýmsu móti og ekki allt gott. En trúin verður ekki dæmd af mistökum, frekar en góð löggjöf af glæpamönnum, eldur af brennuvörgum eða þjóðir af áföllum. Afstaða Jesú til boðorðanna er til fyrirmyndar. 





Jesús Kristur hafði afslappaða frelsisafstöðu gagnvart reglum. Jesús benti á, að lífið þjónar ekki reglum heldur þjóna reglur lífinu. Þannig ætti að nálgast lög, form og kerfi manna, líka boðorðin. Jesús áleit, að aðalreglurnar væru um mannvirðingu og Guð. Hann bjó til tvöfalda kærleiksboðið, sem er eiginlega samþjöppun hans á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Tvöfalda kærleiksboðið fjallar um að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo: “Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. … og náunga þinn eins og sjálfan þig.”





Þetta er hin elskulega útgáfa og túlkun Jesú á boðorðunum. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa boðs. Elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langtréð eða uppstólpinn. En trúin er einskis virði nema að hún bæti líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð á krossinum. Og í samtíð okkar hefur komið í ljós að ef við erum ekki rótfest í heilnæmri náttúrutengingu förum við villur vega, mengum og deyðum. Trú, sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð, er á villigötum. Trú, sem aðeins sér menn, hefur tapað áttum. Guð og fólk, Guð og veröld - allt í senn og samfléttað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð, menn, nátttúru og að Guð elskar þig og alla veröldina. Og andsvar þitt við þeirri elsku er, að þú mátt elska Guð, veröldina og mennina þar með. 





Guðselska eða I-god





Hvernig var aftur fyrsta boðorðið? Það hljóðar svo: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.





Þetta hljómar einfalt, en er þó snúið. Letingjar veraldar forðast alltaf þetta boðorð. Ísraelar bjuggu til gullkálf og allir menn hafa tilhneigingu til að búa sér til sinn eigin smáguð, sitt eigið guðsríki. Sumir trúa blint á flokkinn sinn, aðrir lúta fíknarguðinum. Fæðufíkn, neyslufíkn nær tökum á mörgum. Margir óttast svo yfirmenn sína, flokksræðið og alls konar harðstjórnir, að menn tapa áttum, hugrekki og heilindum og litlir hjáguðir verða einræðisherrar. Síðan er sjálfsdýrkun í ótal útgáfum, sem er algengasta hjáguðadýrkun í okkar heimshluta. 





Það er I-godeða ég-um-mig-frá mér-til-mín-afstaðan, sem á sér síðan ótal spilingarútgáfur. Þessi smáguðaafstaða er það, sem er drifkraftur spillingar í vestrænum samfélögum. Stærsta hrun síðustu ára Íslands er ekki fjármálahrun eða bankahrun heldur siðferðishrun. Það hrun er einstaklingum, félögum og samfélagi eins og illvígt innanmein, sem hefur búið um sig í leynum og lengi, menningarmein sem dregur til dauða ekki bara fólk heldur líka lífríki náttúrunnar. 





Ef við, sem einstaklingar, komumst ekki út úr okkar eigin smáveröld verðum við sjálfsblekkingu að bráð og sérstaklega um eigið ágæti og eigin snilli. Og sjáum þá ekki að veröldin er stærri en mannheimur og við höfum stærra og merkilegra hlutverki að gegna en bara í okkar smáheimi. Hlutverk okkar er að þjóna, ekki bara að sjálfum okkur - heldur líka öðrum. Fyrsta boðorðið merkir, að ég verði ekki raunverulegt ég nema Guð sé þar, fái aðgang að sjálfinu og hjáguðirnir fari úr hásætinu. Viskan er: Ef litlu guðirnir fá of mikið vægi veiklast líf og lífsgæðin spillast. En ef Guð fær að vera miðja sjálfs og lífs þá getur sjálfið lifað vel, guðsflæðið virkað rétt og samfélag manna, þjóðfélagið, græðir stórlega. Guð og gildi fara saman. 





Öll könnuðumst við að hafa ruglast á röð boðorðanna. Það er í góðu lagi því það er andi boðorðanna sem er aðalmálið. Takmarkið er, að þau verði okkur töm, að við temjum okkur inntak þeirra, þau verði innræti okkar, mynstur sálarinnar, sem stýrir viðbrögðum okkar í lífinu. 





Uppþot og mannasiðir





Hvaða grunn þörfnumst við undir byggingu samfélags, menningar og samskipta? Hvers konar leikreglur þarf að setja? Hvaða gildi viljum við að stofnanir og skólar þjóðarinnar hafi? Þegar dýpst er skoðað - hvers konar gildi viljum við og hvers konar mannasiði? Fyrsta orðið er upp, þvert og niður. Nær til alls sem er í þessari veröld og er til góðs. „Ég er Drottinn Guð þinn ... þú skalt ekki aðra Guði hafa.“  





Íhugun í Hallgrímskirkju 27. janúar, 2019. Næstu sunnudaga verður rætt um boðorðin sem skráð eru m.a. í 2. Mós. 20. kafla.