Nr. 2

11. febrúar 2019

  1. Mósebók  20: 1 -3, 7
    1 Drottinn mælti öll þessi orð:
    2 „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
    3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig…..
    7 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.


A
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.  Amen


“Guð,
menn nota stundum nafnið þitt
nefna það án þess að vanda sig
Fólk sem virðist ekki þekkja þig
en þykist taka mark
á orðum þínum”


Þannig farast Aðalsteini Ásberg orð í ljóðaþýðingu og staðfæringu á franska textanum Dieu eftir fransk/túnesíska jasssöngvarann Dany Brilliant
"Guð" (Dieu) heitir ljóðið einfaldlega og það er glíman okkar í dag,
Gu𖠠og þetta að vanda sig - ekki að leggja nafn Guðs við hégóma.


Það er djúp viska í þessum ljóðaorðum og hljóma kannski eins og svar við verkefni dagsins – að fjalla um  2. boðorðið sem fjallar um leggja nafn Guðs við hégóma. Guð sem minnir okkur á meginmál boðorðanna undir yfirskriftinni forðum.
“„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.”


Við skulum aðeins líta á samhengi sögunnar og upprunans – boðorðin sem rituð eru bæði í 2. Mósebók / Exodus og í Deuteronomium /5. Mósebók.
Við upphaf 20. kaflans í Exodus þá hafa Ísraeldmenn verið frelsaðir frá þrældómi í Egyptalandi og eru lagðir í sína eyðimerkugöngu undir leiðsögn Móse. Búið að losa þjóðina undan oki Faraó og hópurinn er kominn gegnt fjallinu Sínaí í eyðimörkinni  þá leggur Drottinn Móse til orð –  10 ákvæði – eins og þungmiðju samfélags. Svo fylgir síðar lagabálkurinn allur þessi 613 lagaákvæða lögmálsins sem varða allt milli himins og jarðar allt frá matarumhirðu til hegðunar fólks í nánum samböndum, atferlis presta og byggingu helgistaða.



Lögmálið – það sem Kristur vildi endurnýja í kærleika,
Síðar dregur Lúther okkur í guðfræði sinni inn í heim lögmáls og fagnaðarerindis, undirstrikar náðina.  
Það liggur í orðanna hljóðan að annað er okkur ljúfara en hitt en Lúther segir að aðgreining þessa tveggja sé mest og erfiðast allra viðfangsefna kristninnar.


Orðin sem eiga rætur í samtíma Móse trúlega flest en við verðum að túlka þau inn í samtíma okkar.
Lögmálið sem skipar og krefur en fagnaðarerindið sem laðar að, býður og færir. Jesús gefur okkur tóninn – um hið æðsta boðorð, lífstjáning til Guðs og elsku til náungans.  Lögmál og fagnaðarerindi, hégómi og nafn Guðs.


"Við erum mjög mikilvæg" sagði framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækisins Goldman Sachs, Lloyd C. Blankenfein í viðtali við New York Times frá árinu 2009.
Sami maður segist trúa því að bankinn þjóni samfélagslegum markmiðum – heill samfélagsins og já, eru að “vinna Guðs verk” eins og hann orðaði það.


Og mín takmarkaða viska á sviði hagfræði segir þó að leikur fjármálamanna með afleiðusaminga með húsnæðislán, launabónusa og græðgi þeirra á fé sem aldrei var kannski til og hégómi hafi á endanum blekkt svo markaðinn að saklaust fólk sveið undan og missti húsnæði sitt. Snilldar hringrás ?  Er það að leggja nafn Guðs við hégóma að taka að sér að vinna verk Guðs á þennan hátt ?


Þess Guðs sem leiddi þjóðina og í raun sköpunina alla
út úr þrælahúsum þess samtíma og minnir okkur á hvar okkar þrælahús eru enn í dag.
Þeir voru jú að : “Vinna verk Guðs”
Er þetta að leggja nafn Guðs við hégóma ?


Er það ekki hégómi forystumanna sumra ríkja hinns vestræna heims og segjast hafa Guð í hendi sér. Segjast vera að vinna verk hans og í þeirra huga er ekki efi þó að réttlætið, sannleikur, umburðarlyndi séu fórn hégóma yfirgangs og valdasækni.


Eða að vilja öllu fórna til að reisa veggi milli þjóða og hindranir og skyrrast ekki við að bera skrök á borð, segjast vera að vinna verk í Guðs nafni, segjast eiga velþóknun hans vísa og hringla inn í eigin bergmálshelli ?


Og líka þetta
Það hefur stundum þótt æði umdeilt og sérstakt, jaðra við sérvisku, guðlast að sjá Guð sem konu,  tala um hann sem konu og við hann sem móður,
einhverskonar hégómi 
Það þykir sumum að leggja nafn Guðs við hégóma  -  að nefna Guð móður


Krista eftir bresku listakonuna Edwinu Sandys (dóttur Winstons
Churchill ) frá árinu 1974 er bronsstytta af naktri konu á krossi . ”Guðfræðileg og söguleg fyrra” ? sagði Walter Dennis biskup þegar styttan var sett upp í dómkirkju heilags Jóhannesar í New York árið 1984
Styttan var tekin niður -  en 2017 var hún sett upp aftur.


Ætlun listakonunnar var að koma boðskap á framfæri um þjáninguna á þann hátt sem hefðbundin trúarbrögð gætu ekki ekki.  Ætlunin var ekki að særa trúarvitund heldur að undirstrika boðskap um konuna sem þjáist vegna ofbeldis, er gleymd, misnotuð..
Er það að leggja nafn Guðs við hégóma að finna leiðir til að nálgast Guð í lífi okkar – finna ný orð, nýjar myndir,  Guð sem móðir ?  Guð sem kona ? 


Já og þegar við túlkum ráðsmennsku hlutverk okkar á jörðinni sem leyfi til að nota og nýta.  Hégómleg kannski í yfirgangi okkar af því að við erum kóróna sköpunarverksins og því beri okkur að nota frekar en spara, græða frekar en fórna ?


Við erum í dansi milli lögmáls og fagnaðarerindis, milli hégóma og einlægni


"Guð ég kem ekki augu á andlit þitt.
Einna helst vildi ég sjá þig hér"
–þýðir Aðalsteinn Ásberg áfram ljóðið um Guð.


Kærleikur Guðs sem birtist í hinu æðsta boðorði að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf.  Allt fær nýtt ljós í þessari birtu kærleikans.  Það tekur ekki frá okkur skyldur okkar og þurrkar ekki út orðin sem áður voru sögð heldur gáfu þeim nýtt gildi.   Eru sístæð orð sem segja stríð á hendur sjálfmiðlægni og spretta fram úr sjóðum skaparans en eru ekki reynslumiðaðir lagabálkar mannfólksins – sem eru afgerandi heldur um náungan og okkur sem endurskapast í ljósi kærleika skaparans


Að vanda sig við að nefna  Guðs felur í sér að treysta því að Guð sé sá sem hann segist vera.  Og við ávörpum hann af áræðni, trausti fyrir allri okkar tilveru og náunga okkar.


Skaparinn sem stöðugt skapar í kapp við forgengileikann, skort á kærleika, réttsýni og umburðarlyndi.


Birtist hégóminn kannski í að snúa sjónarhorninu sífellt að okkur sjálfum – hvort sem er að mynda okkur sjálf með takkanum á símanum sem snýr myndavélinni að okkur eða að hjúfra um sig í eigin bergmálshelli þar sem aðeins rúmast ég eða þú með eigin dóma ?


Skaparinn sem þekkir hégómleika okkar og sjálfmiðlægni sem
birtist gjarnan í eftirsókn eftir innihaldslausum hlutum, útliti, vinsældum og velgengni og þarna eigum við held ég öll sterka innkomu :)  ekki bara strá og uppgerðar byggingar eða nýtt nef og six pack.
Andsvarið er vilji manneskjunnar til að takast á við grundvallargildi og sýn okkar á Guð og náungann. Vera tilbúin að breyta, breytast


Að leggja nafn Guðs við hégóma er kannski það þegar við veljum aðra undir velþóknun Guðs, náð hans.  Skiljum þau eftir sem deila ekki okkar litbrigðum, trú, kynhneigð eða kyni ?


Hégóminn á mörg andlit
en okkar er trúlega fyrst og síðast að því að forgangsraða í huga okkar og hjarta, lífi okkar. 
Setja Guð í hefðarsætið, vilja hans, gjörðir.
Guð sem leiddi okkur út úr þrælahúsinu forðum, til frelsis og kærleika og þannig að við skynjum að það sem aldrei verður hégómi er einlægni okkar, heildindi, innstu hugsanir, elskan til Guðs og náungans. Að vanda sig við að nota nafn Guðs. 


 


Flutt í Hallgrímskirkju 3. febrúar 2019