Nr. 3


Sunnudagar 

Frekar leiðinlegir fannst mér alltaf. Sunnudagslambalærið í hádeginu og sósan um kvöldið var gjarnan afgangur frá hádeginu og kjötið orðið framlágt.  Bragðlausir dagar framundan, rífa sig á fætur til að mæta í skólann - standa sig í náminu. Yfir sumarið var það frystihúsið með hvítbláum ljósum undir borðum, sem lýstu upp fjársjóði þjóðarbúsins.  Þetta gaf tekjur í vasa unglingsins en oft litla gleði því í stað þess að vera dagurinn til að finna gleði sína og hljóm í lífinu, var þetta aðeins áminning um röð þreyttra daga
Þetta er æsku – og unglingsminning. Mynd af  hvíldardegi, sunnudegi.  Svo hafa dagarnir eins og hlaupið upp til handa og fóta til að halda vörð um söguna -  satt best að segja og nú erum við komin til ársins og dagsins í dag.


Fagnaðarerindi hvíldardagsins er viðfangsefnið í dag.  Hvíldardagurinn sem var ungmenninu þrúgandi er dagurinn sem er upphafið að lífinu.  Þegar sköpunarverkið eins og tók fyrsta andardráttinn þá kom hvíldardagur. 
Upphafið, dagur framtíðarinnar.
Orðið um hvíldardaginn er það þriðja í röðinni af 10 yfirlýsingum sem mynda boðorðabálkinn.
Með árunum frá þunglyndislegri lýsingunni hér í upphafi þá hefur boðskapur hvíldardagsins fengi annað bragð.
Okkur lærist að þykja vænna og vænna um tímann okkar með hverju árinu – er það ekki ?   
Okkur lærist vonandi að meta hvíldina, vera róleg yfir henni halda ekki að hvíldin sé tákn um aðgerðarleysi, leti, að við og verk okkar fari fram hjá öllum öðrum

Bregðum okkur í stutt tímaflakk -
Áfangastaðurinn fyrsti er Eden – svona áður en óreiða veraldarinnar tekur völd, þar sem skilin og skilningur milli góðs og ills verða til eftir þessa fallegu tjáningu um sköpun heimsins.  Syndin hefur eins og læðist inn í veröldina, góður dagarnir að baki og áður en óréttlæti mannsins varð sköpuninni skeinuhætt og kærleikanum til Guðs og náungans.
Við erum stödd í aldingarði Guðs samkvæmt 1. Mósebók og fegurðin finnst mér alltaf ná hámarki þegar Guð gengur um aldingarðinn í kvöldsvalanum.
Guð sem hvílist í kvöldsvalanum....
Mynd höfundar 1. Mósebókar er af skapara sem röltir um í kvöldsvalanum.  Upplifun manneskju af Guði.  Guðsmynd sem mætti miðla inn í veröld sem er sítengd þar sem skil milli vinnu og hvíldar verða æ ógreinilegri þar sem í stað kvöldsvalans er komin innri kulnun og leiði, þreyta.   

Ég hef löngu týnt myndinni af Guði sem hvítskeggjuðum góðlegum karli heldur sem Guði sem á heiminn að líkama sínum á einhvern hátt,  röltir um í kvöldsvalanum en á æ erfiðar uppdráttar í kvöldsvala heimsina í dag.
 
...en það dró til  tíðinda í Paradís þessa árdaga því skötuhúin Adam og Eva, karlinn og konan -
“heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og konan földu sig á milli trjánna fyrir augliti Guðs." 

Þetta minnir okkur á að Guð sem er ekki ofar sköpunarverkinu eða utan heldur við hlið þess.  Guð við hlið mannsins, Guð við hlið okkar og sýnir það á einstakan hátt,

Segir okkur það með hvíldinni
   “Minnstu hvíldardagsins – að halda hann heilagan” – ekki láta amstrið yfirvinna framtíð þína, lífið þitt ..

Trúlega fyrstu vinnuverndarlög veraldarinnar um að halda hvíldardaginn heilagan.  Þetta var fagnaðarerindi langþreyttum þrælum forðum sem höfðu beygt sig undir áþján Faraós og ætti að vera okkur líka gleðifrétt í túlkun okkar á því sem stendur í Biblíunni...

Hvíldardagur til að mæla sér mót á sérstakan hátt við Guð í tilbeiðslunni, helgihaldinu.   Dagur samfélagsins, að uppbyggjast, hvílast, dagur réttlætis.  Allir áttu að hvílast samanber lögmálið.  Ekki aðeins húsbændur heldur vinnulýðurinn, þrælar og jafnvel dýrunum átti að gefa hvíld.  Að halda hvíldardaginn var fyrst og síðast um lífið og trúnað Guðs við okkur og Guð sem heldur áfram að gefa.
Og síðar í 5. Mósebók kemur svo skýrt fram að hvíldardagurinn, eða Sabbath sem hefur merkinguna hvíld á hebresku á rót sína í tíma þegar fólkið vissi hvað var að eiga harðstjórann Faraó sem gaf aldrei hvíldarstund en Guð ætlar hvíldardaginn öllum án aðgreiningar,  mönnum og skepnum. 
Já gangan í kvöldsvalanum þegar lífið núllstillist – fær sitt jafnvægi og skilar okkur krafti okkar og gleði í daginn.
Hindrunin er kannski kapphlaupið við heiminn, efnisleg gæði, hagvöxtinn, framleiðini , okkar Faraó í dag ?
Okkur getur fundist svo margt um þessi orð í gamla testamentinu – en myndirnar eru þessi mikla tjáning mannsins um Guð og upptakturinn að því hvernig tjáir þú Guð í þínu lífi og orðin tíu þurfa þinn huga til að fara um þau og finna þeim stað í þínum veruleika, þinni samtíð

 En örstutt aftur
til fortíðar

í lögmálinu Gamla testamentiser eru líka ákvæði um hvíld á sjö ára fresti en þá
hvílum við ræktunarlandið, gefum þrælum frelsi, skilum landi til þeirra sem
áttu það, gefum upp skuldir,  Í þágu
þeirra efnaminni.  Eins og til að efla
samfélagið og að völd og fé væru ekki í hendi of fárra.

Hvíldin er ekki bara hvíldardagur vikunnar heldur er líka lífsháttur, að halda trúnað við þann sem heldur trúnað við okkur, Guð.
Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna eins og stendur í guðspjallssögunni hjá Markúsi
Hvíldin er ekki fyrirskipuð af Guði, hún er komin frá Guði, hluti af sköpuninni og er lífsnauðsynleg til að halda gleðinni í lífinu, andardrættinum.

Við höfum líka í huga að í dag eru enn milljónir í veröldinni sem geta ekki hvílt sig af því þau hafa ekki efni á því að taka sér hvíldardag – þessi raunveruleiki er sár. 
En svo ber að hafa líka í huga að það er heldur ekki alltaf nauðsyn sem heldur fólki að skjám eða vinnuborði.
Stundum er það eins og töfrar lífsins felist í vinnunni og að halda sér að vinnu.  Því er líka þannig háttað að oft er ábyrgðin mikil og kröfurnar sannarlega og margir sinna löngum vinnudegi í þágu annarra. 
Kannski berskjaldar hvíldin okkur ef við sjáum ekki lífi okkar tilgang eða innihald á neinn annan hátt en að sinna vinnunni ?  

En við þurfum tíma til hvíldar um leið og hvíldardagurinn þarf félagsskap daganna sem leiða til hans.  Rétt eins og hjá hinu langþreytta ungmenni sem líst var hér í upphafi.  Hvíldin er endurnæring svo við örmögnumst ekki heldur sköpum tilgang í líf okkar með því að beina sjónum að þakklæti fyrir lífið, hverja stund, hvert augnablik

Heilagur merkir frátekinn, heilagur er tími hvíldardagins af því hann er frátekinn til að vera, anda lifa, hvíla.  Allt það sem er gleði okkar.  Tíminn sem við eigum til að minna okkur á andvarp gleðinnar, til að horfa inn á við í hvíldinni, líta yfir til ástvina okkar eða annars tilgangs í lífinu.

Boðorðin, fyrirmælin, orðin tíu, eru og lifa í ljósi þess að Guð elskar manneskjuna og gefur henni frelsi til að þiggja.  Snertir réttlætið, kærleikann, myndina af Guði sem á heiminn að líkama sínum, æðakerfi, hjarta á einhvern hátt,  Guð sem röltir um í kvöldsvalanum en á æ erfiðar uppdráttar í kvöldsvala heimsina í dag.

Látum þessa stuttu ferð um hvíldina og hvíldardaginn eiga niðurlag í
í 14. Passíusálmi en þar yrkir Hallgrímur:
“Hann sem að næturhvíld og ró
hverri skepnu af miskunn bjó…

og andsvar skáldsins er síðar í sama sálmi :

Hvíldarnótt marga hef ég þáð
Herra Jesú af þinni náð

Við þiggjum hvíldardaginn, hvíldina af náð Guðs
Guð sem leiddi okkur út úr þrælahúsinu og gaf okkur hvíldardaginn til að minna okkur á elsku sína,  líkaman sem veröldin er og þarf að hvílast, hvílast til að skynja og trúa að Guð andar lífi í þennan heim þrátt fyrir allt.    

.og við siglum inn í fjórða boðorðið um að heiðra föður og móður. 
Meira um það næst. 

Flutt í Hallgrímskirkju 10. febrúar 2019
Síðasti sunnudagur eftir þrettánda
Þemaprédikanir um orðin 10

Lexía

2. Mós. 20 1-2, 8- 11

Drottinn mælti öll þessi orð:

„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

….

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum
þínum.  En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu
ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né
ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða
þinna.  Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem
í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.

Þannig hljóðari hið heilaga orð

Pistill

2. Kor 3.13-17

Ég geri ekki eins og Móse sem setti skýlu fyrir andlit sér til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á ljóma þess sem var að hverfa. En hugur þeirra varð sljór. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt því að Kristur einn lætur hana hverfa. Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra hvenær sem lesið er úr lögmáli Móse. En „þegar einhver snýr sér til Drottins er skýlan tekin burt“. Drottinn er andinn og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.


Guðspjall:
Mark 2 23

Svo bar við að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.  Farísearnir sögðu þá við hann: „Lít á, hví gera þeir það sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“ 
 Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði er honum lá á þegar hann hungraði og menn hans?  Hann fór inn í Guðs hús þegar Abíatar var æðsti prestur og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.“ 
Og Jesús sagði við þá: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.  Því er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.“