Nr. 4

06. mars 2019


Ferðalagið okkar heldur áfram. Samband foreldra og barna, 4. boðorðið, yfir 3000 ára samleið með veröldinni og við erum komin til dagsins í dag.





“En ég ætla að segja núna svo alþjóð heyri, fyrirgefðu Halldóra mín. Mína sök.” 
Þessi orð snertu strengi, siðferðilega og viðkvæma, þegar maður á níræðisaldri tók þannig upp hanskann fyrir fatlaða dóttur sína og ávarpaði þannig í viðtali í sjónvarpinu fyrir um það bil ári síðan.  Þetta tengdist erfiðum málum, erfiðum ákvörðunum um vistun hennar á stað þar sem ekki var alltaf farið vel með hana eins og kom seinna í ljós í þessu samtali í sjónvarpinu.  Erfiðar ákvarðanir foreldris.  Við efumst, veltum vöngum, vitum ekki alveg hvað okkur finnst?

Þetta kom svo "spontant" hjá þessum aldna föður -  fyrirgefðu.  Hann var þess meðvitaður um hvað skiptir mestu máli, hver skiptir mestu máli.  Hvernig hann virðir þau sem eru honum kærust, barnið hans sem leið undan óréttlæti og skeytingarleysi og fyrst og síðast horfði hann í eigin barm, hvar hann hafði brugðist.





Þetta kom fyrst í huga á leiðinni til móts við 4. boðorðið. Sem okkur hættir  til að leggja ofuráherslu á að sé nokkurskonar mantra um að börn eigi að hlýða foreldrum sínum – skilyrðislaust, virða þau, elska, hlýða , lúta aga






Það er fátt líkt með því að ala upp barn í dag, eignast það, annast það frekar en að það er fátt líkt með því að vera barn í dag miðað við tímann þegar lögmálið var sett forðum daga.  Held ekki að Móse hafi dembt sér í bleyjuskipti og eldamennsku þegar hann kom niður af fjallinu. Það er allt breytt ..





..og Jesú
Guðspjallið sem lesið var hér áðan
Jesú 12 ára, er það ekki þessi sístæða frásaga, vera skiljanleg fyrir foreldri,
sagan af foreldrum, Maríu og Jósef sem standa plikt sína að eigin tíma skilningi og okkar. Hvað það þýðir að eiga börn, fóstra þau eða að ala þau upp, kynnast þeim, sakna þeirra, óttast, gefast ekki upp…





En trúlega er draumarnir þeirra Maríu og Jósefs að óskýrast, það fennir kannski yfir englasönginn, undrun fjárhirðanna og aðdáun vitringanna. Kannist þið við þessa tilfinningu á einhvern hátt úr eigin lífi þegar frá líður að barn kemur í heiminn. Það sem var okkur og er okkur óendanlega mikilvægt -  upphafið að fá nýjan einstakling í hendur á gleðistundu.
Trú þeirra Maríu og Jósefs og elska til barnsins dofnaði ekki en himneskan hverfur oft úr lífinu þegar hin hversdagslegu átök og erill taka við.





Í lífi sínu benti Jesús okkur á elskuna til barnanna, eiginleika þeirra og uppbyggilega einlægni. Börn leika stóran þátt í hjálpræðissögunni á sinn máta.  María móðir Jesú hefur vart verið af barnsaldri þegar hún varð þunguð.  Ungur drengur sem ræðst móti ofurafli sínu – risanum Golíat og sigrar. 






Að hlúa að barni og virða býr til einstaklinginn sem lærir að heiðra föður og móður.





En óvirðing gagnavart börnum finnst enn
Börnum er hótað ef þau hagi sér illa og hlýði þau ekki missi þau elsku og virðingu foreldra sinna. Stundum er háskastaðurinn í lífi þeirra heimilið, foreldrið háskinn í lífi barns. 
Skilningsleysi foreldris á því hvert barnið er og stundum er það skilningsleysi og andvaraleysi barna gagnvart foreldrum. 

Þessi margræða frásaga af unglingnum Jesú.  Sem svarar móður sinni af ákveðnu skeytingaleysi,
segir okkur að sá Jesús sem fæddist sem maður og dó sem maður, reiddist og grét.  Miðlar okkur líka sýn á hið mannlega, misbrestina en líka barnið sem týnist og virðist ekki hafa skilning á ótta foreldra sinna -
Misjafnt hvert sögur Biblíunnar leiða okkur....





Boðorðið um að heiðra föður og móður er í raun ekki um barn gagnvart foreldrum heldur um fullorðna einstaklinga    Þetta er boðorðið um hina gagnkvæmu elsku í náungakærleika.  Elsku sem við nemum af elsku Guðs.  Jöfn, séð, elskuð





Í bók dr. Sigurður Pálssonar, Uppeldisréttur,  leiðir hann rök að því að ekki sé hægt að finna í Biblíunni rök sem styðja foreldrarétt – hann sé utan sviðs guðfræðinnar og bæði afstæður og breytilegur. Kirkjan getur aðeins barist fyrir foreldrarétti að hún hafi ábyrgð einstaklingsins að leiðarljósi.  
( Dr. Sigurður Pálsson, 2011:24-29)





Dæmisagan um bræðurna tvo – munið þið eftir þeim.  Sá sem kaus að fara að heiman og sá sem kaus að vera heima – ef við settum upp spurningakeppni hér á staðnum...
" Hver var sá sem heiðraði föður sinn, var það glaumgosinn  sem sóaði eða var það hinn sem varð eftir heima ? 
Ég veit að þessi saga er ekki einhöm en hún er jú um samband foreldris og fullorðinna sona, gæti eins verið um móður en einnig um þennan eiginleika að geta gengið í sig og foreldrið hefur skilning á þessu –
Foreldrið ber virðingu fyrir barninu, ekki síður því sem aldrei bregst og er alltaf þarna og líka barninu sem fer allar krókaleiðirnar í lífinu en týnir ekki elsku foreldris. 





Við könnumst vafalaust við þessa sögu úr samtímanum. Barnið sem ákveður að fara eigin leiðir, allt of snemma og lendi á þessari braut sem við köllum stundum hála.  Við fögnum því – þegar birtir til og þau átta sig.    
En við þekkjum líka sögurnar af óbilgirni og virðingarleysi foreldra





Ég heyrði eitt sinn sögu af ungum karlmanni. Sem drengur hafði aldei hlotið viðurkenningu móður sinnar.  Þegar hann óx úr grasi skildi hann loksins að gagnrýni móður hans hafði fengið hann til að hugsa hvort hún hefði nokkurn tímann viðurkennt hann sem son.  Hann var 35 ára og átti sjálfur börn og einn daginn hringir mamman og boðar komu sína. Sonurinn panikeraði – nú var hann með skegg og það félli móur hans örugglega ekki í geð.  5 dagar í mömmu og endalausar vangaveltur um hvort hann ætti að raka af sér skeggið. En daginn, þegar von var á heimsókninni rakaði hann af sér skeggið.  Í fjölmennri í flugstöðinni sér hann hvar hún kemur gangandi.  Hann fer brosandi á móti henni – en sér þá að mamman setur í brýrnar – pírir augu í átt til hans  og segir svo.  Gott að sjá þig elsku drengurinn en - "eru þessir bartar ekki aðeins of síðir ? "
Þá varð honum ljóst að hann gæti aldrei eins og fallið í geð eða fengið viðurkenningu hennar....   "Bartarnir voru of síðir.. "





Á stundum er eins og misrétti komi fram í skorti á gagnkvæmri virðingu foreldris og barns.  Við heiðrum ekki þau sem eiga ekki heiður skilið ?





Jafnréttið sprettur ekki af dómi Guðs heldur af kærleika Guðs.  Samband foreldris og barns er byggt á jafnrétti okkar frammi fyrir Guð, jafnstöðu.  Manneskja sem er elskuð af Guði getur ekki verið elskuð minna en önnur sem hvílir líka í elsku Guðs ?

Sá sem heiðra skal föður og móður hlýtur að vænta þess sama til baka. 
Ég veit ekki hvað Móse fannst um gagnkvæmni eða foreldrarétt,
Hann var á leið úr þrælahúsinu, laus undan okinu, ánauðinni og treysti Drottni.  Síðan eru svona 3000 og eitthvað kannski 4000 ár. 
Kristur kom síðar til að leiða okkur til móts við nýtt lögmál, kærleika jafnræðis og jafnréttis.





Svo færa tímarnir og tilveran okkur sjúkdóma þar sem fólk hverfur inn í fortíðina, missir tökin á tilverunni, persónuleikinn breytist, stundum er það ellin og stundum ekki en eins og áttirnar týnist.
Þá er það elskan frá foreldrinu sem nú krefst elsku þinnar og virðingu þó að hlutverkin snúist enn og aftur við.  Lífið færir okkur endalaust ný verkefni ný hlutverk, angist við að standa sig undir lögmáli venja og krafna þá er gott að muna að Kristur færði lögmálið undir náðina þar sem kærleikurinn er hið æðsta lögmál, langlyndið, góðvildin.   





Það minnir okkur á síbreytileika þess sem stendur í bókinni góðu, Biblíunni, sem segir líka sögu þess besta sem hefur gerst á himni og jörðu. Við þurfum alltaf nýja lykla að segja söguna upp á nýtt..





En um leið minnir það okkur á hinar gagnkvæmu skyldur okkar, misbresti okkar sem manneskjur í samfélagi við þau sem við elskum mest, þau sem gera mestu kröfurnar til okkar, elska okkur heitast.  Barn sem fæðist í þennan heim og á stundum ekki neitt víst nema elsku þeirra sem báru þau í þessa veröld og í varnarleysi kallar eftir eftir virðingu okkar og heiðurssæti í lífi veraldarinnar





“En ég ætla að segja núna svo alþjóð heyri, fyrirgefðu Halldóra mín.
Mína sök.”
Heiðrum foreldra okkar, uppalendur, afa og ömmu, börnin og afkomendur.
Látum þetta boðorð lifa líka sem boðorðið um að heiðra lífið, gagnkvæmni, lífsskoðun, uppeldi til gagnkvæmrar elsku -   Ég held að þannig hafi kærleikur Krists farið höndum um það





Lexía
2. Mósebók 20: 1-3, 12
1Drottinn mælti öll þessi orð:
2 „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig......
12 Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.





Pistill
Hebreabréfið 12 : 9 – 10, 12-13   
Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. ……
Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.





Guðspjall
Lúkas 2 : 41 – 52





Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér.  Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja.  En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.  Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“  En þau skildu ekki það er hann talaði við þau. 
Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. 52 Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.





Flutt í Hallgrímskirkju 17. febrúar 2019
1. sunnudagur í níuviknaföstu
Þemasunnudagar um boðorðin – 4. boðorðið