Nunnur í Hallgrímskirkju

23. nóvember 2018
Þessi föngulegi hópur af nunnum kom í kirkjuna í morgun. Reyndar voru tveir karlar í hópnum og annar þeirra með yfirvaraskegg - en samt í nunnubúningi. Þau eru að dimittera, uppáklædd vegna þess að nú er tímum lokið í framhaldsskóla og stúdentsprófin eru framundan. Einn úr hópnum sagði upphátt: „Ég vissi ekki að þjóðkirkjan væri svona opin og skemmtileg. Eða er þetta kannski fríkirkja?“ Og svo kom niðurstaðan: „Ég þarf nú að fara endurskoða fordóma mína gagnvart þjóðkirkjunni.“ Presturinn sagði „amen.“ Já, kirkjan er opin og skemmtileg, jákvæð og mannvinsamleg. Og þessi hópur er einn af mörgum, sem Hallgrímskirkja tekur á móti, og það er alls konar fólk sem kemur og er velkomið. Fordómar búa til girðingar og afstöðu. En kirkja er og á að vera öllum opin því Jesús Kristur var alltaf jákvæður.