Nýr tími þjóðkirkjunnar og tvítugsafmæli

28. nóvember 2021
Fréttir

Já, það var hátíð í Hallgrímskirkju í dag. Biskup og forseti kirkjuþings undirrituðu aðildaryfirlýsingu þjóðkirkjunnar að sambandi evrópskra mótmælendakirkna. Forseti og framkvæmdastjóri þess kirknasambands, John Bradbury og Mario Fischer, rituðu undir fyrir sambandsins einnig. Athöfnin var í suðursal kirkjunnar og hófst kl. 10. Í guðsþjónustunni eftir undirritun lásu fulltrúar Hjálparstarfs kirkjunnar, messuþjónar, prestar kirkjunnar og erlendu fulltrúarnir lestra og báðu bænir. Biskup prédikaði og kynnti landssöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Kór Hallgrímskirkju söng fagurlega undir stjórn Steinars Loga Helgasonar og Björn Steinar Sólbergsson lék með krafti á orgelið. Eftir guðsþjónustu, sem var útvarpað á RÚV, sögðu Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir frá hönnun skírnarfonts kirkjunnar og sextán listaverkum sem þau hafa unnið að og kirkjan á og gestir njóta. Við þökkum að biskup skuli nota kirkjuna fyrir mikilvægan atburð, kirkjusögulega undirritun við upphaf nýs tíma. Ný vídd í lífi þjóðkirkjunnar og hátíð í Hallgrímskirkju. 

Mynd SÁÞ sýnir Drífu Hjartardóttur, forseta kirkjuþings, rita undir yfirlýsinguna í Hallgrímskirkju.