Opnun sýningar föstudaginn 25. ágúst kl. 18

24. ágúst 2017
Alpha & Omega



Fredrik Söderberg

Christine Ödlund





 

Ný sýning á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju með verkum sænsku listamannanna Christine Ödlund og Fredrik Söderberg, Alpha & Omega, verður opnuð í Hallgrímskirkju 25. ágúst 2017 kl. 18. Listvinafélaginu er mikill heiður af því að fá þessa virtu sænsku listamenn til að sýna í forkirkjunni, en þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir þau eru sýnd á Íslandi.

Dr. Sigurður Árni Þórðarson opnar sýninguna og Rósa Gísladóttir myndlistarfulltrúi Listvinafélagsins kynnir myndlistarmennina, sem segja einnig stuttlega frá verkum sínum. Boðið verður upp á léttar veitingar og eru allir velkomnir!

Við vinnslu verkanna fimm sem Fredrik Söderberg sýnir í Hallgrímskirkju studdist hann við handrit að Opinberunarbók Jóhannesar sem munkurinn Beatus frá Liébana (730-785) ritaði og var síðar skrifað upp í Saint Sever klaustrinu í Frakklandi, og þaðan kemur heitið, Alpha et Omega. Í verkunum leitast Söderberg við að tjá hinar frumstæðu myndir handritsins. Samhverfan sem birtist í fornum handritslýsingunum er hrífandi í öllum sínum einfaldleika.

Verk Christine Ödlund snúast um hæfileikann að hefja sig yfir þá múra sem hindra tjáskipti fólks og jurta, og mörkin milli hins sýnilega og ósýnilega.

Þrjú verkanna sem eru til sýnis voru gerð á djúpsvörtum bakgrunni, næstum óhlutbundin mótíf sem unnin voru með náttúrlegum litarefnum sem saman mynda samþjappaða líffræðilega samblöndun. Klippimyndin Exploding Star blandar saman mörgum teikningum sem lýsa því sem aldrei verður skilið til hlítar, undur alheimsins sem eiga sér stað utan andrúmsloftsins.

Christine Ödlund hefur verið virk í sýningarhaldi á alþjóða vettvangi og hefur meðal annars tekið þátt í sýningum á borð við Momentum Nordic Biennal of Contemporary Art í Moss í Noregi og Marrakesh-tvíæringnum í Marokkó.

Verk Fredrik Söderberg hafa meðal annars verið sýnd í Historiska Museet í Stokkhólmi, Galleri Riis í Osló, í Sænsku stofnuninni í París og tók þátt í Magasin III í Stokkhólmi.

Þau búa bæði og starfa í Stokkhólmi.

Sýningin opnar föstudaginn 25. ágúst 2017 kl. 18 og að venju verða léttar veitingar í boði.

Inga Rós Ingólfsdóttir framkvæmdastjóri s. 696 2849

Rósa Gísladóttir sýningarstjóri s. 864 0407

Listvinafélag Hallgrímskirkju

listvinafelag.is