Orgelsumar - Jónas Þórir

10. ágúst 2021


Jónas Þórir kemur fram á hádegistónleikum Orgelsumarsins næsta laugardag, 14. ágúst. Tónleikarnir hefjast klukkan 12:00 og standa í um 30 mínútur. Gestir eru hvattir til að mæta tímanlega vegna nýrra sóttvarnarreglna en skrá þarf gesti í sæti fyrir tónleikana og getur það tekið nokkrar mínútur.

Hægt er að kaupa miða við innganginn og á tix.is

Miðaverð er 2000 krónur en börn undir 16 ára aldri fá ókeypis.
Jónas Þórir (1956) kantor, tónlistarmaður og tónskáld er barnfæddur Reykvíkingur, nánar tiltekið í Vesturbænum. Hann varð stúdent frá MR og hóf nám í HÍ í læknisfræði en fylgdi köllun tónlistarinnar sem reyndist eiga hug hans allan. Jónas Þórir var alinn upp á miklu tónlistarheimili þar sem pabbi hans Jónas Þórir Dagbjartsson var fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og mamma hans Ingrid Kristjánsdóttir var píanókennari við Tónskóla Sigursveins. Hann hóf 8 ára gamall nám í fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara og var einn yngsti nemandi Tónlistarskóla Reykjavíkur. Seinna var Jónas Þórir nemandi Halldórs Haraldssonar á píanó og Marteins Hunger á orgel. Einnig var hann nemandi Atla Heimis Sveinssonar í tónsmíðum. Hann útskrifaðist sem tónmenntakennari og síðar lauk hann kirkju- og kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem aðalkennari hans var Björn Steinar Sólbergsson. Í Bergen var Jónas Þórir við nám í orgelleik.



Jónas Þórir var lengi vel kennari við Tónlistarskóla FÍH þar sem hann kenndi tónfræðigreinar ásamt því að vera meðleikari í söngdeild skólans. Jónas Þórir er einn af kennurum Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hann hefur verið mikilvirkur meðleikari helstu söngvara landsins og haldið tónleika víða. Jónas Þórir hefur komið að 45 geisladiskum og yfir 300 sjónvarpsþáttum m.a. Spaugstofunni.

Jónas Þórir er kantor Bústaðakirkju í Reykjavík.