Orgelsumar - Matthías Harðarson kemur fram 17. júlí

13. júlí 2021
Matthías Harðarson, organisti í Vestmannaeyjum, leikur listir sínar á þriðju tónleikum Orgelsumarsins þann 17. júlí. Á efnisskránni eru verk eftir Johann Sebastian Bach; Johannes Brahms; Maurice Duruflé og Louis Vierne.

Tónleikarnir hefjast klukkan 12:00 og standa í um 30 mínútur. Hægt er að kaupa miða við aðganginn en miðaverð er 2000 krónur. Ókeypis er fyrir börn undir 16 ára aldri.

Matthías Harðarson hóf píanónám 10 ára gamall við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum. Meðal kennara hans þar voru þau Gíslína Sól Jónatansdóttir, Guðmundur H. Guðjónsson og Kittý Kovács. Hann lærði einnig á saxófón undir handleiðslu Stefáns Sigurjónssonar. Að loknu miðprófi á píanó hóf Matthías nám á orgel hjá þáverandi organista Landakirkju, Guðmundi H. Guðjónssyni og síðar hjá Kittý Kovács. Árið 2016 lauk Matthías kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og lauk kantorsprófi sem og BA námi við Listaháskóla Íslands 2020. Þar lærði hann orgelleik hjá Birni Steinari Sólbergssyni, kórstjórn hjá Magnúsi Ragnarssyni og litúrgískanorgelleik hjá Guðný Einarsdóttur, Eyþóri Inga Jónssyni og Láru Bryndísi Eggertsdóttur. Samhliða orgelnáminu lagði Matthías stund á vélstjórn og útskrifaðist sem vélfræðingur árið 2017. Matthías er í mastersnámi í kirkjutónlist við konunglega tónlistarháskólann í Árósum. Hann hefur tekið þátt og skipulagt ýmsa viðburði tengda kirkjunni og má þar nefna þemamessur í Landakirkju. Einnig hefur hann leyst af sem organisti í Landakirkju og kirkjum á höfuðborgarsvæðinu.