Orgeltónleikar Kitty Kovács, fimmtudaginn 5. júlí kl 12

03. júlí 2018
Fimmtudaginn 5. júlí kl. 12 leikur organisti Landakirkju í Vestmannaeyjum, Kitty Kovács, verk eftir Johann Sebastian Bach, Tournemire og hina undurfögru Vocalisu Rachmaninovs.

Miðaverð er kr. 2000.

Miðasala hefst í anddyri Hallgrímskirkju klukkutíma fyrir tónleika og á www.midi.is.


Kitty Kovács er fædd í Gy?r í Ungverjalandi árið 1980 og útskrifaðist árið 2003 frá tónlistardeild Széchenyi István háskólans þar í borg með diplómu í píanó- og kammertónlist. Eftir útskriftina starfaði hún sem undirleikari í Gy?r og lagði síðan stund á undirleikaranám við Ferenc Liszt Akademíuna í Búdapest. Á námsárum sínum vann hún í píanókeppnum, m.a. árið 1997 í Salt Lake City og árið 2000 varð hún í 3. sæti í Chopin keppninni.


Kitty kom til Íslands árið 2006 og hefur starfað sem píanókennari og organisti, frá árinu 2011 hefur hún verið organisti Landakirkju í Vestmannaeyjum og kennari við Tónlistarskóla Vestmannaeyja.


Undanfarin 4 ár hefur Kitty stundað orgelnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar og nú í vor lauk hún einleikaraáfanga þaðan. Kennari hennar þar var Lenka Mátéová.