Passíusálmarnir á dönsku – útgáfuhóf á sunnudaginn kl. 14

07. maí

Passíusálmarnir á dönsku
– Útgáfuhóf sunnudaginn 12. maí kl. 14.00

Dönsk þýðing séra Björns heitins Sigurbjörnssonar á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, sem verið hefur ófáanleg í mörg ár, kemur út í veglegri kilju um næstu helgi. Útgáfuhóf verður haldið í Norðursal Hallgrímskirkju sunnudaginn 12. maí nk. kl. 14:00 af þessu tilefni. Útgáfan er hluti af Minningarári 350 en í ár er þess minnst í Hallgrímskirkju með margvíslegum hætti að 350 ár eru liðin frá andláti skáldsins sem kirkjan er kennd við.

Í hófinu verða nokkur stutt ávörp. Einar Karl Haraldsson segir frá útgáfunni, Rannveig Sigurbjörnsdóttir bregður upp æskumyndum af bróður sínum, Páll Valsson talar um Björn sem ljóðskáld og Steinunn B. Jóhannesdóttir segir frá heimsókn til þýðandans. Lilian Sigurbjörnsson, ekkja Björns, verður meðal gesta í hófinu. Séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir stýrir útgáfuhófinu.

Rómuð þýðingin Björns Sigurbjörnssonar kom fyrst út á vegum Hallgrímskirkju 1995. Henni fylgir ítarlegur formáli af hans hendi um líf skáldsins og eiginkonu hans, Guðríðar Símonardóttur.

Passíusálmarnir á dönsku eru nú gefnir út, í samvinnu kirkjunnar og Skálholtsútgáfunnar, í kilju sem skreytt er með myndstefjum úr steindum glugga Leifs Breiðfjörð yfir aðaldyrum, auk forma og mynda úr kirkjunni sem Sigurður Árni Þórðarson, fyrrv. sóknarprestur tók. Í lok útgáfuhófsins á sunnudag mun Leifur ganga með gesti að listaverki sínu á 2. hæð kirkjunnar og skýra út táknmál þess.

Hönnuður bókarinnar er Halla Sólveig Þorgeirsdóttir.

Allir eru velkomnir í útgáfuhófið.

 

HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR!