Passíusálmarnir koma út á finnsku og færeysku

„Ég var beðinn að svara því hvort Hallgrímur væri hæfur til útflutnings“, sagði Karl Sigurbjörnsson biskup í lok erindis síns á fróðlegri málstefnu um nýja enska Passíusálmaþýðingu Graciu Grindals sem haldin var í Hallgrímskirkju sunnudaginn 13. mars síðastliðinn: „Þetta yfirlit svarar því að ýmsir hafa álitið svo vera, fyrr og síðar. Það er athyglivert að af öllum þeim aragrúa passíusálma sem ortir voru um alla Evrópu á 17. öld, margir hverjir af fremstu skáldum barokktímans, eru sálmar Hallgríms þeir einu sem með sanni má segja að séu lifandi arfleifð, sem enn í dag hrífa og vekja fólk, líka í fjarlægum löndum og á framandi tungumálum“.

Í máli Karls kom fram að undanfarin misseri hefði hann verið í stöðugu sambandi við færeyskt skáld, Jógvan Steintún, sem hefur nú lokið nýþýðingu allra Passíusálmanna. Útgáfa þeirra mun vera væntanleg í Færeyjum. Þá væri skáldkona að nafni Tytti Issakainen að þýða Passíusálmana á finnsku. Falast hefur verið eftir því að fá að gefa þá út með myndum Barböru Árnason.

46 sinnum og 4 sinnum

Á málþinginu ræddi Mörður Árnason fræðimaður um rannsóknir sínar á gyðingaandúð í Passíusálmunum og lagði mat á þýðingu Graciu Grindal úr frá því sjónarmiði. Taldist honum til að Hallgrímur nefndi 46 sinnum Gyðinga og Júða en Gracia Grindal 4 sinnum og allt gæti það staðist út frá meiningu skáldsins. Hins vegar væri á einum stað lagt út af „guðsdrápinu“ með þeim hætti að ekki væri um texta Hallgríms að ræða og það væri miklu verra. Slík frávik kölluðu að minnsta kosti á skýringar. Spunnust af þessu umþenkingar sem ástæða þótti til að haldið yrði áfram í betra tómi.

Samanburður þýðinga

Margrét Eggertsdóttir prófessor svaraði því hvort hægt væri að þýða Passíusálma m.a. með því að leiða fram samanburð Andrew Wawns sem m.a. þýddi doktorsritgerð hennar um Barokkmeistarann á enska tungu, á fyrsta erindi Passíusálma í fimm mismunandi enskum þýðingum (Upp, upp mín sál… o.s.frv.). Málstefnugestir gerðu góðan róm að þessum samanburði en svarið við spurningunni var einfaldlega að þeir hefðu verið verið þýddir og væru enn.

Sönghæfni þýðinga

Sigurður Sævarsson ræddi sönghæfni Passíusálmaþýðingarinnar og samstarf sitt við Graciu Grindal. Sigurður hefur notað texta hennar við Passíu sína. Það er greinilegt að ýta má undir söng Passíusálmanna á erlendum málum og tók Sigurður fram að „enduryrking“ Arve Brunvolls á nýnorsku, sem út kom 2014, væri sérstaklega sönghæf. Mikils er að vænta í þessu efni af nýrri færeyskri þýðingu, enda er ákveðin sönghefð á eyjunum. Victor Danielsen þýddi hluta Passíusálmanna á færeysku á 6. áratug síðustu aldar. Sálmarnir voru ekki gefnir út en dreift í fjölriti og um árabil voru þeir fluttir í færeyska útvarpinu á föstunni, sungnir af Ingálfi af Reyni. 

EKH